RNB upplýsingafundur
RNB upplýsingafundur

Íþróttir

Rafíþróttir eru komnar til að vera
Einbeitingin skín af þessum Fortnite-keppanda. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 1. desember 2023 kl. 12:05

Rafíþróttir eru komnar til að vera

– segir Atli Már Guðfinnsson sem tók við sem yfirþjálfari rafíþróttadeildar Keflavíkur [RAFÍK] síðasta haust. Atli hefur spilað tölvuleiki eins lengi og hann man eftir sér og hefur mikla reynslu að deila með ungu og efnilegu rafíþróttafólki. Víkurfréttir tóku tal af Atla sem fræddi okkur um starfsemi rafíþróttadeildarinnar og út á hvað skipulagðar æfingar í rafíþróttum ganga.

Atli Már Guðfinnsson er yfirþjálfari rafíþróttadeildar Keflavíkur.

Byrjaði að spila í Underground

Á þriðja tug krakka á aldrinum átta til sextán ára sem æfa í þremur hópum hjá RAFÍK segir Atli. „Ég er nýtekinn við sem yfirþjálfari deildarinnar og er með þrjá hópa í gangi núna; átta til tólf ára, þrettán til sextán og svo keppnishóp.“

Public deli
Public deli

Hver er þinn bakgrunnur í rafíþróttum?

„Ég hef spilað tölvuleiki frá því að ég var smápolli. Byrjaði að spila í Underground, sem var undir þar sem Fjölskylduhjálp Íslands er núna, og hef spilað síðan þá. Hef alltaf verið að spila einhverja leiki, aldrei stoppað. Ég hef kannski aldrei verið eitthvað frábær í tölvuleikjum en ég kann á þá alla og skýri út á hvað þeir ganga fyrir krökkunum og kenni þeim á þá. Svo notast maður líka við tæknina sem er í dag til þess að finna nýjar leiðir til að kenna þeim.“

Atli segir að rafíþróttadeildin snúist ekki eingöngu um að spila tölvuleiki og hans starf snúist um annað og meira en það.

„Sko, það eru ekkert allir sem koma til að spila og ætla sér að ná eitthvað langt í íþróttinni, það er langtímamarkmið sem verður vonandi að veruleika seinna meir en margir krakkanna koma fyrst og fremst til að komast út af heimilinu og hitta aðra krakka. Sumir eru bara félagslega einangraðir og þurfa að hitta einhvern og ég reyni svolítið að fá þau til að tala saman, tengjast við hvert annað og efla félagsleg tengsli sín – og vinna í því að eignast vini. Krakkar eru svo rosalega einangraðir núna þegar allir eru á TikTok og senda bara skilaboð á Messenger, þau tala varla við hvert annað.“

Atli segir að hann reyni að leiðbeina þeim í samskiptum með ákveðnu spjallforriti sem heitir Discord. Þar eiga krakkarnir samskipti sín á milli og hann fylgist með.

„Svo notum við spjallforritið ef þeim vantar aðstoð, þá spyrja þau út í eitthvað sem þeim vantar aðstoð með og reyna að finna út úr því í sameiningu. Þannig hjálpa þau hvert öðru til að verða betri, finna út úr vandanum í sameiningu og efla liðsheildina.“

Ungur rafíþróttamaður að spila Fortnite.

Byggir upp liðsanda

„Framtíðin er að vera með meistaraflokk í lelikjum eins og Counter Strike. Counter Strike-senan er svolítið stór á Íslandi og það er mikið verið að keppa í Counter Strike, League of Legends og fleiri leikjum. Planið er að byggja þessa krakka upp í það að spila undir merkjum RAFÍK á faglegan hátt til að komast lengra. Ég er vissulega að byggja upp liðsanda til að búa til sterk lið eins og hinar deildirnar hafa verið að gera, t.d. fótboltinn, því rafíþróttir eru komnar til að vera og það er undir okkur komið hvernig við viljum ná til krakkanna og hjálpa þeim að skara fram úr í tölvuleikjum.“

Atli segir að auk þess að spila tölvuleiki sé hugað að hreyfingu og liðleika á æfingum. „Þegar þau mæta á æfingar er það fyrsta sem þau gera að ná sér í mottu og gera æfingar, liðka sig til og koma blóðinu á hreyfingu. Ég læt þau gera armbeygjur, hnébeygjur og leik mér með allskonar æfingar. Svo spjöllum við saman, ég við þau og þau við mig. Ég leiði svolítið samtalið og fæ þau til að segja mér frá einhverju sem er að gerast hjá þeim, fæ þau til að spjalla saman og hafa gaman. Þetta snýst ekki bara um að sitja í tölvunni. Síðan fæ ég þau til að segja hvaða leik þau ætli að spila og raða þeim saman sem vilja að spila sama leikinn. Svo hef ég umsjón með því sem er að gerast og þegar svona tíu mínútur eru eftir af æfingunni þá tökum við hugleiðslu, slökkvum ljósin og allir ná sér aðeins niður eftir öll lætin.“

Það er á dagskrá hjá Atla að taka í notkun Kahoot-spjöld þar sem hann er óbeint að kenna krökkunum um betri heilsu. „Þar er ég að spyrja þau spurninga um svefn og mataræði og þess háttar. Þá er ég að kenna þeim um heilbrigði í undirmeðvitundinni. Þau elska að vera í Kahoot og það ætti ekki að vera vandamál að lauma inn jákvæðum upplýsingum um heilsusamlegan lífsstíl – smygla inn grænmeti með kjötinu.“

Atli Már leiðbeinir á æfingu.

RAFÍK heldur opið mót í Fortnite

Opið mót í Fortnite verður haldið í húsnæði rafíþróttadeildar Keflavíkur við Hringbraut næstkomandi laugardag, 2. desember. „Við erum að halda mótið til að kynna starfsemina hjá okkur. Þarna keppa krakkar frá okkur í RAFÍK, það koma líka krakkar utan úr úr bæ, Reykjanesbæ, og FH í Hafnarfirði. Þau höfðu samband frá Rafíþróttasambandi Íslands og spurðu hvort það mætti ekki koma með krakka frá höfuðborgarsvæðinu og ég svaraði því auðvitað játandi, það koma allavega fimm keppendur frá FH sem er mjög spennandi. Það er mikil aðsókn í mótið svo það er alveg hugsandi að við hendum í annað mót fljótlega eftir áramót.

Það er ekkert svo mikið mál að halda svona mót, við fáum stuðning frá mörgum fyrirtækjum sem gefa gjafabréf í verðlaun og svo er auðvitað pizzaveisla í lokin. Það er gaman að koma saman, hittast og spila saman – og ekki er verra að fá verðlaun fyrir það,“ sagði Atli að lokum en bætir við að fyrir utan mót og æfingar þá er hægt að leigja út aðstöðuna og tölvurnar fyrir hópa.

Opna mótið í Fortnite hefst klukkan 13:00 laugardaginn 2. desember og er öllum áhugasömum velkomið að kíkja við til að kynnast starfsemi deildarinnar. Húsnæði rafíþróttadeildar Keflavíkur er í gamla K-húsinu við Hringbraut.

Pabbar eiga til með að lauma sér með á æfingar.