Íþróttir

Njarðvíkurstúlkur Íslandsmeistarar
Collier og Vilborg fagna Íslandsmeistaratitilinum.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 1. maí 2022 kl. 21:15

Njarðvíkurstúlkur Íslandsmeistarar

Njarðvíkingar eru Íslandsmeistarar í körfubolta kvenna eftir magnaðan sigur í hreinum úrslitaleik gegn Haukum í Ólafssal á Ásvöllum í Hafnarfirði. Lokatölur urðu 65-51.

Njarðvíkingar náðu strax forystu í leiknum með frábærri byrjun og héldu henni allan leikinn. Þær léku sterkan varnarleik og sóknarleikurinn gekk mjög vel á meðan ekkert gekk hjá Haukum. Mest var forysta UMFN 26 stig en Haukar tóku loks við sér í fjórða leikhluta en munurinn var of mikill og Njarðvíkurstúlkur unnu frábæran sigur. Þær urðu Íslandsmeistarar  síðast 2008. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég er ógeðslega stoltur af stelpunum. Þær voru frábærar í þessum leik og þá voru stuðningsmenn okkar líka frábærir. Það munaði miklu að hafa þá,“ sagði Rúnar Erlingsson, þjálfari Njarðvíkinga í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.

Njarðvík vann þrjá útileiki í úrslitunum gegn Haukum en þær grænu komu upp úr 1. deild í fyrra og því er árangurinn magnaður hjá ljónunum úr Njarðvík. Liðið mætti mjög ákveðið til leiks, Collier átti enn einn stórleikinn en fleiri komu sterkir inn, m.a. Lavína De Dilva sem var með 15 stig og þá skoraði Helena Rafnsdóttir 12 stig, þar á meðal mikilvægar þriggja stiga körfur.

Áhorfendamet var slegið en tæplega 1400 manns mættu í Ólafssal. Jóhann Páll Kristbjörnsson var á leiknum og verður með viðtöl og myndir og viðtöl úr leiknum og af nýkrýndum meisturum Njarðvíkur, síðar í kvöld.

Haukar-Njarðvík 51-65 (5-16, 14-25, 13-13, 19-11)

Njarðvík: Aliyah A'taeya Collier 24/25 fráköst, Lavína Joao Gomes De Silva 15/10 fráköst, Helena  Rafnsdóttir  12, Diane Diéné Oumou 12/5 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 2, Dzana Crnac 0, Krista Gló Magnúsdóttir 0, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Þuríður Birna Björnsdóttir Debes 0, Vilborg Jonsdottir 0/8 fráköst/6 stoðsendingar, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.

Haukar: Haiden Denise Palmer 11/6 fráköst/6 stoðsendingar, Helena Sverrisdóttir 8/19 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 8, Lovísa Björt Henningsdóttir 7/4 fráköst, Eva Margrét Kristjánsdóttir 6/8 fráköst, Sólrún Inga Gísladóttir 6, Elísabeth Ýr Ægisdóttir 3/6 fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 2, Heiður Hallgrímsdóttir 0, Agnes Jónudóttir 0, María Ósk Vilhjálmsdóttir 0, Jana Falsdóttir 0.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson
Áhorfendur: 1378

liyah A'taeya Collier var valin leikmaður ársins en hún hefur verið lykilleikmaður UMFN í allan vetur.