Íþróttir

Njarðvíkingar hafa tryggt sér sæti í næstefstu deild
Ísinn brotinn, fyrsta mark Njarðvíkinga kom rétt fyrir hálfleik. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 21. ágúst 2022 kl. 19:13

Njarðvíkingar hafa tryggt sér sæti í næstefstu deild

Njarðvík mun leika í Lengjudeild að ári eftir að hafa lagt Völsung af velli 3:0 í dag. Með sigrinum er Njarðvík efst í deildinni og hefur nú fjórtán stig á Völsung sem er í þriðja sæti þegar fjórar umferðir eru eftir. Þróttarar Reykjavík eru í öðru sæti en þeir unnu Reynismenn 3:1 í dag. Reynir situr í fallsæti, sjö stigum á eftir Víkingi Ólafsvík og KFA, þegar tólf stig eru í pottinum.

Njarðvík - Völsungur 3:0

Það tók heimamenn 43 mínútur til að brjóta á bak aftur vörn Völsungs en fyrsta markið kom eftir hornspyrnu. Njarðvíkingar fengu þá tvær hornspyrnur í röð og eftir fyrri spyrnuna þurfti dómari leiksins að stilla til friðar í teig Völsungs þar sem leikmenn féllu hver um annan þveran í tilraun til að fá dæmt á andstæðinga sína. Eftir dágóða stund var þó hægt að halda leiknum áfram og Oumar Diouck tók aftur horn. Ari Már Andrésson vann einvígið í markteignum og stangaði boltann í netið (43'), heimamenn komnir í forystu og leiddu 1:0 í hálfleik.

Ari Már gerist ágengur upp við mark Völsungs skömmu áður en hann skoraði.

Njarðvíkingar hafa sýnt í sumar að þeir eru langbesta liðið í deildinni og í dag voru þeir ráðandi afl í leiknum. Einar Orri Einarsson bætti við öðru marki fyrir Njarðvík á 71. mínútu og í uppbótartíma gullltryggði Samúel Skjöldur Ingibjargarson sigurinn (90'+5).

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, fór á völlinn og má sjá myndasafn úr leiknum neðst á síðunni.


Þróttur R. - Reynir 3:1

Útlitið er ekki gott fyrir Reyni en liðið þarf að ná sjö stigum hið minnsta úr síðustu fjórum umferðunum ætli það sér ekki að falla.

Reynir átti lítið erindi í Þrótt, sem hefði getað unnið stærri sigur í dag, en fyrsta markið kom á 12. mínútu og það var eina mark fyrri hálfleiks.

Strax í upphafi þess síðari tvöfaldaði þróttur forystuna (47') og til að bæta gráu ofan á svart þá misstu Reynismenn Zoran Plazonic af velli skömmu síðar með sitt annað gula spjald í leiknum (54'). Ekki batnaði það þegar Birkir Freyr Sigurðsson, þá tiltölulega nýkominn inn á, braut af sér og dæmt var víti. Birkir lét þá skapið hlaupa með sig í gönum og fékk í kjölfarið að líta rauða spjaldið fyrir orðbrúk. Þróttur skoraði þriðja mark sitt úr vítinu (73').

Tveimur færri klóraði Reynir þó í bakkann þegar Magnús Magnússon, fyrirliði Reynismanna, minnkaði muninn (81') en lengra komustu þeir ekki og 3:1 urðu úrslit leiksins.

Reynismenn þurfa á sigrum að halda í síðustu umferðunum.

Njarðvík - Völsungur (3:0) | 2. deild karla 21. ágúst 2022