Íþróttir

Njarðvíkingar á siglingu og eru efstir
Þeir Magnús Þórir Matthíasson og Kenneth Hogg skoruðu fyrstu tvö mörk Njarðvíkinga í kvöld. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 30. maí 2022 kl. 22:28

Njarðvíkingar á siglingu og eru efstir

Annar Suðurnesjaslagur Njarðvíkinga í röð skilaði þeim öðrum sigri og efsta sætinu í 2. deild karla í knattspyrnu. Reynismenn mættu á Njarðtaksvöllinn í kvöld og máttu þola fjórða tapið sitt í deildinni en Njarðvíkingar unnu fjórða leikinn í fjórum umferðum.
Oumar Diouck hoppar upp úr rennitæklingu Sindra Lars Ómarssonar – ekkert gefið eftir.

Það var Magnús Þórir Matthíasson sem opnaði markareikning Njarðvíkinga í kvöld þegar hann skoraði á 9. mínútu eftir skógarhlaup Ivan Jelic, markvarðar Reynismanna, og var það eina markið sem var skorað í fyrri hálfleik þrátt fyrir góðar tilraunir beggja liða. Eins og við var að búast var leikið af krafti og lítið gefið eftir í návígjum.

Reynismenn mættu tvíefldir til seinni hálfleiks og byrjuðu hann af krafti, sóttu að marki Njarðvíkur og voru klaufar að jafna ekki leikinn. Fyrst varði Robert Blakala vel frá Birni Aroni Björnssyni og Ivan Prskalo var hársbreidd frá því að ná að pota boltanum yfir línuna en framhjá fór hann. Skömmur síðar átti Sindri Lars Ómarsson fasta sendingu fyrir mark Njarðvíkur en boltinn fór af Sigurjóni Má Markússyni, varnarmanni Njarðvíkinga, og rétt yfir þverslána. Reynir fékk horn en þessum sóknarþunga Reynismanna svöruðu Njarðvíkingar með skyndisókn. Þeir óðu fram í sóknina, áttu gott skot sem Jelic varði vel en boltinn barst út úr teignum til Kenneth Hogg sem lagði hann snyrtilega innanfótar frá vítateig út við stöng. Það þarf ekki alltaf að vera fast – staðan skyndilega orðin 2:0 fyrir heimamenn. Það var svo Úlfur Ágúst Björnsson sem sló botninn í kvöldskemmtun Njarðvíkinga með marki á 83. mínútu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Það er blússandi gangur hjá Njarðvík þessa dagana og það skilar sér í fleiri aðgöngumiðum seldum – veðrið skemmdi ekki fyrir og var nánast „uppselt“ í stúku. Gróflega áætlað voru áhorfendur vel á sjötta hundrað sem sáu leikinn í blíðunni í kvöld.

Njarðvík hefur nú tveggja stiga forskot á toppi 2. deildar, með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir. Reynismenn hafa hins vegar tapað öllum fjórum leikjum sínum og þurfa að rífa sig í gang fyrr en síðar eigi ekki illa að fara.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, kíkti á Njarðtaksvöllinn og smellti af nokkrum myndum sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.

Njarðvík - Reynir (3:0) | 2. deild karla 30. maí 2022