Íþróttir

Njarðvík vígði troðfulla IceMar-höllina með sigri – Grindavík lagði Hauka á útivelli
Það var kraftur í Njarðvíkingum í kvöld þegar þeir unnu góðan sigur í fyrsta leiknum á nýjum heimavelli. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 12. október 2024 kl. 22:43

Njarðvík vígði troðfulla IceMar-höllina með sigri – Grindavík lagði Hauka á útivelli

Njarðvíkingar hófu nýjan kafla í sögu félagsins á sigri þegar ný og glæsileg körfuknattleikshöll, IceMar-höllin, var formlega tekin í notkun í kvöld. Vel yfir 900 áhorfendur mættu á leikinn og sáu Njarðvík vinna Álftanes með níu stigum eftir hörkuleik í Bónusdeild karla í körfuknattleik. Á sama tíma héldu Grindvíkingar á Vellina í Hafnarfirði og lögðu í fyrri hálfleik grunn að góðum tólf stiga sigri sigri á Haukum.
Khalil Shabazz setti niður sjö þrista og var samtals með 33 stig.

Njarðvík - Álftanes 89:80

(24:25, 21:19, 23:16, 21:20)

Það var hreint stórkostleg stemmning á vígsluleik IceMar-hallarinnar í kvöld. Þetta glæsilega mannvirki sem Njarðvíkingar hafa beðið eftir að taka í notkun stóðst allar væntingar og áhorfendur létu sig ekki vanta, um 920 manns mættu á leikinn og nánast troðfylltu höllina en þess ber að geta að ekki er búið að taka alla stúkuna í notkun.

Leikurinn var jafn og spennandi eiginlega frá upphafi til enda. Gestirnir leiddu með einu stigi eftir fyrsta leikhluta (24:25) en heimamenn fóru inn í hálfleikinn með eins stigs forystu (45:44).

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Dwayne Lautier-Ogunleye var næststigahæstur Njarðvíkinga með 32 stig.

Í þriðja leikhluta voru Njarðvíkingar talsvert sterkari og náðu að auka forskotið í átta stig (68:60) og því í vænlegri stöðu fyrir fjórða leikhluta.

Álftnesingar voru hins vegar ekki búnir að játa sig sigraða og skoruðu sex fyrstu stigin í fjórða hluta og munurinn einungis tvö stig (68:66). Gestirnir náðu að komast yfir (70:73) en þá tóku ljónin úr Njarðvík við sér og lönduðu góðum sigri í þessum opnunarleik.

Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkinga, leiddi lið sitt til sigurs í fyrsta heimaleiknum í Innri-Njarðvík.

Frammistaða Njarðvíkinga: Khalil Shabazz 33, Dwayne Lautier-Ogunleye 32/4 fráköst, Dominykas Milka 10/7 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 9/5 fráköst, Mario Matasovic 4/9 fráköst, Snjólfur Marel Stefánsson 1, Isaiah Coddon 0, Brynjar Kári Gunnarsson 0, Guðmundur Aron Jóhannesson 0, Sigurbergur Ísaksson 0, Kristófer Mikael Hearn 0, Patrik Joe Brimingham 0.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttaritari Víkurfrétta, var í IceMar-höllinni og ræddi við þjálfara Njarðvíkur og fleiri aðila eftir leik. Viðtöl og myndasafn eru neðar á síðunni.


Haukar - Grindavík 80:92

(16:24, 13:26, 25:24, 26:18)
Daniel Mortensen skilaði fimmtán stigum fyrir Grindavík gegn Haukum í kvöld. Mynd úr safni VF/JPK

Frammistaða Grindvíkinga: Jason Tyler Gigliotti 26/12 fráköst, Devon Tomas 23/8 fráköst/7 stoðsendingar, Daniel Mortensen 15/6 fráköst, Deandre Donte Kane 13/5 fráköst/7 stoðsendingar, Kristófer Breki Gylfason 6, Valur Orri Valsson 6, Oddur Rúnar Kristjánsson 3, Jón Eyjólfur Stefánsson 0, Einar Snær Björnsson 0, Hafliði Ottó Róbertsson 0, Nökkvi Már Nökkvason 0, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 0/6 fráköst.

Njarðvík - Álftanes (89:80) | Bónusdeild karla 12. október 2024