Íþróttir

Njarðvík vann Keflavík í alvöru nágrannaslag
Elvar Már umkringdur Keflvíkingum. VF-mynd/pket.
Mánudagur 7. janúar 2019 kl. 21:42

Njarðvík vann Keflavík í alvöru nágrannaslag

„Sennilega hafa mínir menn ekki átt von á því að Elvar myndi missa bæði vítaskotin þarna í blálokin. Hann hirti frákastið og það hafði mjög mikið að segja þarna,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflvíkinga eftir sigur Njarðvíkinga á Keflavík í Domino’s deildinni í körfu í Blue höllinni í Keflavík í kvöld. Lokatölur urðu 85-88 fyrir þá grænu sem leiddu í hálfleik með 15 stigum, 35-50.

Jafnt var með liðunum í fyrsta leikhluta og heimamenn leiddu með tveimur stigum. Njarðvíkingar áttu hins vegar annan leikhlutann og Keflvíkingar léku illa og fóru hnýpnir í búningsherbergi með fimmtán stig í mínus.

Keflvíkingar komu hins vegar með allt annað hugarfar í þriðja leikhluta og minnkuðu muninn í 4 stig þegar flautað var til loka hans. Þeir héldu því áfram í lokaleikhlutanum og héldu áfram að minnka muninn og komust svo yfir þegar 5 mín. voru eftir. Njarðvíkingar voru hins vegar ekkert á því að sitja uppi stigalausir eftir þennan leik og lokamínúturnar voru æsispennandi og svo spennandi að Hörður Axel átti lokaskot á síðustu sekúndum leiksins sem hefði jafnað leikinn. En allt kom fyrir ekki og Njarðvík tyllti sér á toppinn, sex stigum meira.

Leikurinn var frábær skemmtun fyrir áhorfendur sem fylltu Blue höllina í fyrsta skipti í vetur. Keflvíkingar sýndu nýjan leikmann frá Litháen sem á eftir að verða drjúgur fyrir liðið í næstu leikjum. Njarðvíkingar eru hins vegar með besta leikmann deildarinnar, Elvar Má Friðriksson í sínum röðum og hann átti frábæran leik sérstaklega þegar Njarðvíkingum gekk sem best, í 2. leikhluta. Keflvíkingar náðu að halda honum betur niðri í seinni hálfleik en hann endaði með 32 stig. „Við vorum búnir að undirbúa okkur gríðarlega vel fyrir þennan leik. Þessir leikir eru magnaðir

og ekkert sem jafnast á við þá. Þessi var kaflaskiptur og það var sætt að klára hann með sigri,“ sagði Elvar Már.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Michael Craion var með 34 stig fyrir Keflavík og Mindaugas Kacinas skoraði 20 stig. Hörður Axel var með 15 stig. Aðrir hjá UMFN voru Jeb Ivey með 17 stig en hann átti mjög góðan leik og Maciek Baginski skoraði líka 17 stig.

VF ræddi við Sverri Þór Sverrisson þjálfara Keflvíkinga og Elvar Má Friðriksson, leikmann UMFN eftir leikinn.

Michael Craion var stigahæstur hjá Keflavík með 34 stig. Hér eru tvö þeirra í uppsiglingu.