Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Mjög vonsvikinn með tímabilið
Marc er alls ekki sáttur við frammistöðu Njarðvíkinga í sumar.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 8. september 2021 kl. 10:23

Mjög vonsvikinn með tímabilið

– segir Marc McAusland, fyrirliði Njarðvíkinga.

Njarðvíkingar berjast fyrir sæti í Lengjudeildinni en með tapi fyrir Reyni um helgina minnkuðu möguleikar þeirra til muna, þar sem Völsungur tapaði óvænt sínum leik gegn Magna þá fengu Njarðvíkingar smá líflínu til að hanga í en þeir þurfa að treysta á að úrslit annara leikja falli þeim í vil. Víkurfréttir spurðu Marc McAusland, fyrirliða Njarðvíkur, út í leikinn og tímabilið.

„Ég er mjög vonsvikinn með úrslit síðasta leiks og hvernig leiktíðin hefur farið hjá okkur – en við höfum engan að sakast við nema okkur sjálfa,“ sagði Marc. „Vissulega höfum við verið svolítið óheppnir með meiðsli og Covid-smit en þegar á heildina er litið höfum við ekki staðið okkur nógu vel og of margir leikmenn verið að leika undir getu.

Við eigum ennþá smá möguleika á að vinna okkur sæti í Lengjudeildinni en þá þurfa aðrir leikir að falla með okkur. Í leiknum gegn Reyni misstigum við okkur herfilega en það má hrósa Reynisliðinu sem varðist vel og skoraði tvö góð mörk úr skyndisóknum – en við ættum að vera með nógu gott lið til að geta brotið þá á bak aftur og skora mörk. Við þurftum sárlega að vinna þennan leik.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ennþá fræðilegur möguleiki fyrir Njarðvík

Allt þarf að falla með Njarðvíkingum

Nú þegar tvær umferðir eru eftir af annarri deild karla þurfa úrslit að falla Njarðvík í hag til að þeir geti fylgt Þrótturum upp í næstefstu deild. Í næstu umferð mætast liðin sem eru í öðru og þriðja sæti, KV og Völsungur. Ef sá leikur endar í jafntefli kviknar vonarglæta hjá Njarðvíkingum.

Fari svo að Völsungur og KV geri jafntefli og Njarðvík vinni Leikni á Fáskrúðsfirði um næstu helgi þá verður lokaumferðin mjög spennandi en þar munu Njarðvíkingar taka á móti Völsungi og Þróttarar leika útileik gegn KV. Vinni bæði Njarðvík og Þróttur sína leiki þá mun Njarðvík fara upp á betri markatölu en KV.

Það vantaði ekki færi hjá Njarðvíkingum í leiknum gegn Reyni en þeir áttu í mestu vandræðum með að hitta rammann.