Íþróttir

Mikilvægur sigur Keflvíkinga
Amelía Rún Fjeldsted sýndi stórleik í gær og átti þátt í öllum mörkum Keflavíkur. Myndir úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 17. ágúst 2022 kl. 10:03

Mikilvægur sigur Keflvíkinga

Keflavík vann mikilvægan sigur á Aftureldingu í gær í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Með sigrinum fjarlægist Keflavík fallsvæðið og er nú í sjöunda sæti deildarinnar og á fjögur stig á Aftureldingu sem er í fallsæti.

Keflavík, sem hafði tapað þremur síðustu leikjum, þurfti verulega á sigri að halda í gær, ekki aðeins stiganna vegna heldur þurfti liðið að bæta sjálfstraustið eftir slæm úrslit í síðustu leikjum – og Keflvíkingar sýndu það frá byrjun að þær ætluðu að gera sitt besta.

Ana Paula Santos Silva skoraði fyrsta mark leiksins með skalla eftir góða fyrirgjöf frá Amelíu Rún Fjeldsted (20'). Keflvíkingar höfðu verið búnar að ógna þessu og því sanngjarnt komnar yfir en við það að lenda undir bættu heimakonur í Aftureldingu í sinn leik og jöfnuðu með ódýru marki áður en hálfleikurinn var úti (34').

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Ana Paula Santos Silva kom Keflavík í forystu.

Afturelding komst yfir snemma í seinni hálfleik (53') þegar sóknarmaður þeirra fékk góða sendingu inn fyrir vörnina og skoraði fram hjá Samantha Murphy í marki Keflavíkur. Keflvíkingar voru ekki lengi að jafna sig á þessu og nokkrum mínútum síðar átti Amelía Rún skot að marki sem hafnaði í hönd varnarmanns og vítaspyrna dæmd. Aníta Lind Daníelsdóttir steig á vítapunktinn og skoraði af öryggi, staðan orðin 2:2 (59').

Þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiktímanum gerði Keflavík út um leikinn með marki frá Dröfn Einarsdóttur. Sigurrós Eir Guðmundsdóttir átti þá sendingu fyrir mark Aftureldingar þar sem Amelía Rún skallaði boltann til Drafnar sem skoraði af öryggi ('75). Þriðja mark Keflavíkur og Amelía Rún búin að koma við sögu í öllum þeirra.

Dröfn Einarsdóttir skoraði sigurmarkið eftir sendingu frá Amelíu Rún.

Mikilvægur sigur hjá Keflavík en úrslit hafa ekki beinlínis verið að fallla með þeim að undanförnu. Með sigrinum hafa Keflvíkingar nú skapað sér smá olnbogarými og fjarlægt sig frá falllsvæðinu en Keflavík hefur þrettán stig í sjöunda sæti, Þór/KA er með tíu, Afturelding níu og á botninum er KR með sjö stig.