RNB Heilsuvika
RNB Heilsuvika

Íþróttir

Mikið skorað í leikjum Suðurnesjaliðanna í kvöld
Dagur Ingi skoraði tvö í tapleik Grindvíkinga. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 21. júlí 2022 kl. 21:51

Mikið skorað í leikjum Suðurnesjaliðanna í kvöld

Nítján mörk voru skoruð í leikjum þeirra Suðurnesjaliða sem léku í kvöld. Níu mörk voru skoruð á Grindavíkurvelli þegar Grindavík tapaði með einu marki fyrir Aftureldingu í Lengjudeild karla í knattspyrnu, Þróttarar töpuðu 6:0 fyrir Fjölni í sömu deild. Haukar og Reynir Sandgerði skildu jöfn, 2:2 í 2. deild karla og Reynir er komið úr botnsætinu.

Grindavík - Afturelding 4:5

Ótrúleg markasúpa á Grindavíkurvelli í kvöld og Grindvíkingar væntanlega súrir að skora fjögur mörk en tapa samt leiknum.

Gestirnir komust yfir á 4. mínútu en Tómas Ásgeirsson jafnaði á 16. mínútu úr víti.

Dagur Ingi Hammer kom Grindavík yfir skömmu fyrir leikhlé (42') eftir sendingu frá Símoni Loga Thasaphong.

Staðan var 2:1 í hálfleik en Afturelding komst yfir snemma í seinnni hálfleik þegar þeir skoruðu í tvígang með mínútu millibili (51' og 52').

Á 79. mínútu komst Afturelding enn á ný yfir en Kenan Turudija jafnaði leikinn fjórum mínútum síðar (83'). Gestirnir gáfust þó ekki upp og skoruðu sigurmarkið á 89. mínútu.


Fjölnir - Þróttur 6:0

Þróttarar náðu ekki að fylgja eftir sigrinum á Grindavík í síðustu umferð en Fjölnismenn unnu öruggan, sex marka sigur í kvöld.

Fyrsta mark Fjölnis kom á 2. mínútu og þeir tvöfölduðu forystuna korteri síðar (17'). Fjölnir gerði út um leikinn með tveimur mörkum í blálok fyrri hálfleiks (45'). Fjölnir bætti svo tveimur mörkum við undir lok leiks (81' og 90') og fyrsta sigri Þróttara í næstefstu deild er því fylgt eftir með stórtapi.


Haukar - Reynir 2:2

Reynismenn náðu sínu öðru jafntefli í röð í 2. deild karla þegar þeir sóttu Hauka heim.

Reynir hefur verið að sýna framfarir í síðustu leikjum og með jafnteflinu í kvöld eru Reynismenn ekki lengur á botni deildarinnar. Reynisliðið er nú jafnt Magna frá Grenivík að stigum, bæði lið hafa sex stig en markahlutfall Reynis er betra. Magni á þó leik til góða gegn Ægi Þorlákshöfn á laugardaginn.