Bilakjarninn
Bilakjarninn

Íþróttir

Mæðgin kjörin íþróttafólk ársins í Grindavík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 17. maí 2025 kl. 06:15

Mæðgin kjörin íþróttafólk ársins í Grindavík

Mæðginin Steinunn Dagný Ingvarsdóttir og sonurinn Alexander Veigar Þorvaldsson frá Grindavík voru kjörin Íþróttakona og -karl Grindavíkur en nafnbótina fengu þau fyrir frammistöðu sína í pílukasti. Fyrir utan píluna þá þykir Alexander mjög efnilegur körfuknattleiksmaður en hann var í hópi Grindavíkurliðsins í fyrstu tveimur leikjunum gegn Stjörnunni í nýafstaðinni rimmu félaganna í undanúrslitum Bónusdeildar karla.

Þar sem margir vilja kalla Grindavík „íþróttabæ“ þar sem körfuknattleikslið bæjarins keppa á meðal þeirra bestu og metnaður knattspyrnuforkólfa er að liðin þeirra leiki líka á meðal þeirra bestu, er afrekið jafnvel ennþá merkilegra.

Það er kannski við hæfi að geta föðursins, Þorvaldar Sæmundssonar en hann þótti og þykir jafnvel ennþá, ansi liðtækur snóker-spilari. Valdi hafði einkar gott lag á því að „batta“ ofan í [hvítu kúlu skotið í aðra kúlu sem fer af batta í gat á móti battanum] en nokkuð mikil snóker-menning var í gangi í Grindavík í kringum 1990 og þá skein sól snóker-spilarans Valda Sæm hvað hæst. Hvert veit nema hann muni endurvekja snóker-íþróttina í Grindavík og því skyldi hann ekki einhvern tíma verða kjörinn íþróttakarl Grindavíkur en nóg um pabbann, hvar liggja íþróttarætur móðurinnar?

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Íþróttabakgrunnur

„Ég er með talsverðan íþróttabakgrunn, ég stundaði bæði frjálsar íþróttir og handbolta í Árbænum. Ég var t.d. í úrtakshópi fyrir Ólympíuleikana í Sydney árið 2000, ég keppti bæði í spjótkasti og kringlu svo það að kasta pílu er ekki það fyrsta sem ég geri í íþróttum. Ég held að það geti skipt máli hvort viðkomandi er með grunn í öðrum íþróttum, þetta þekkjum við t.d. í golfíþróttinni, knattspyrnumenn t.d. sem leggja golf fyrir sig að loknum knattspyrnuferlinum, eru venjulega fljótari að komast upp á lagið með golfið en aðrir en svo eru auðvitað sumir sem eru bara með þetta í sér. Ég var nokkuð fljót að tileinka mér pílutæknina en ég byrjaði bara sem „pílumamma“ sem fylgdi syni sínum á mót og keyrði á æfingar. Síðan gerðist það fyrir u.þ.b. fjórum árum að önnur „pílumamma,“ Sandra Dögg sem sjálf var byrjuð að kasta, bauð mér á prufukvöld og ég hef í raun ekki litið til baka síðan þá. Þess má geta að Sandra er makkerinn minn í dag í tvímenningi. Ég hef náð ágætis árangri á árinu, er með tvo Íslandsmeistaratitla og stefni á fleiri ásamt góðum árangri í öðrum mótum. Ég var t.d. önnur stigahæst kvenna á landinu í fyrra á stigalista ÍPS. Við Alexander erum saman í landsliðinu, það er sko ekki leiðinlegt að vera þar með honum. Ég er með stór markmið og ætla mér að ná langt í íþróttinni.

Ef ég er alveg heiðarleg þá átti ég ekki von á að eiga möguleika á að hljóta þessa nafnbót, Íþróttakona Grindavíkur. Alexander var líka kjörinn íþróttamaður Grindavíkur í fyrra og ég lét mig ekki einu sinni dreyma um að við myndum hljóta þessa nafnbót saman einhvern tíma. Þess vegna er þetta ofboðslegur heiður, ég var í skýjunum bara með að vera tilnefnd en að hljóta svo nafnbótina og deila þessum heiðri með syni mínum er æðislegt!“

Mæðginin með þekktum aðilum úr píluheiminum, Bretunum John McDonald til vinstri og Russ Bray.

Komst strax í landsliðið í pílu

Alexander Veigar hlaut hefðbundið íþróttauppeldi í Grindavík og æfði bæði körfuknattleik og knattspyrnu. Fyrir rýmingu var Pílufélag Grindavíkur búið að opna glæsilega aðstöðu í nýju íþróttamannvirki Grindavíkur og voru æfingar hafnar hjá börnum og unglingum. Alexander var einnig efnilegur í knattspyrnu og var orðinn u.þ.b. sextán ára þegar hann setti knattspyrnuskóna upp í hillu og einbeitti sér af körfuknattleiknum. Hann byrjaði hins vegar að æfa pílukast um þrettán ára, það var svipað hjá honum eins og mömmu hans, Alex Máni vinur hans sem einmitt er sonur Söndru Daggar, dró hann á æfingu með sér.

Körfuknattleikur og píla fara mjög vel saman að mati Alexanders en stundum þarf körfuknattleikurinn að víkja þegar þetta tvennt skarast.

„Ef maður spáir í það, þá gilda svipuð lögmál í körfuboltaskoti og pílukasti, þetta svokallaða „follow-through“ [láta kast- eða skothöndina fylgja hreyfingunni í gegn]. Hingað til hefur körfuboltinn verið númer eitt hjá mér en ég finn hvernig skiptingin er að verða nær 50/50. Það eru ýmis tækifæri fyrir mig til að ná árangri í pílukasti og nú þegar hef ég keppt erlendis og ég hef þá trú á mér að ef ég held áfram að æfa og æfi eins og þeir bestu, geti ég náð langt í pílunni. Ég var valinn í landslið fullorðinna 2023 og hef verið þar síðan eftir að hafa verið í landsliði unglinga U-18 síðan ég var þrettán ára og nýbyrjaður að æfa pílu. Meðal móta sem ég hef unnið undanfarið er Reykjavík International Games tvö ár í röð, var stigahæsti karlinn á stigalista IPS, sigraði Grindavík Open, Sjally Pally og komst í undanúrslit í Euro tour í Riga. Einnig varð ég annar af tveimur Íslendingum sem skrifuðum söguna þar seinustu helgi þegar við komumst í úrslit á Iceland Open en það er í fyrsta skipti sem Íslendingum tekst það. Svo urðum við hjá Pílufélagi Grindavíkur Íslandsmeistarar félagsliða þriðja árið í röð. Pílufélag Grindavíkur vann allar hugsanlegar liðakeppnir, bæði einmenning og tvímenning, m.a. skoruðum við karlaliðið 240 stig í úrslitaleiknum sem er nokkuð sérstakt myndi einhver segja í ljósi póstnúmers bæjarins. Þetta segir okkur hversu framarlega við Grindvíkingar stöndum í pílunni á landsvísu. Markmið mitt í pílunni nær lengra en verða Íslandsmeistari, ég ætla mér að komast í atvinnumennsku og tel það raunhæft markmið. Við mamma erum afskaplega stolt yfir því að vera íþróttakarl og -kona Grindavíkur árið 2024,“ sagði Alexander.