Íþróttir

Litli strákurinn og hnéð stoppuðu Bryndísi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 26. október 2019 kl. 07:47

Litli strákurinn og hnéð stoppuðu Bryndísi

„Það er kannski engin ein sérstök ástæða svo sem af hverju ég ákvað að leggja skóna á hilluna núna. Það er margt sem spilar inn í. Það fer mikill tími í þetta eins og allir vita sem eru í íþróttum og ég er með einn lítinn strák sem mig langar að geta eytt frítíma mínum með. Einnig lítur hnéð ekkert sérlaga vel út að innan svo þetta var bara flott tímasetning til þess að hætta,“ segir Bryndís Guðmundsdóttir, ein fremsta körfuboltakona Keflavíkur til margra ára.

Bryndís fékk af því tilefni afhenta mynd eftir Stefán Jónsson sem hefur gert margar myndir fyrir félagið sem leikmenn hafa fengið afhentar á sérstökum tímamótum. Þetta er gömul og skemmtileg hefð hjá félaginu. Bryndís hefur átt langan og farsælan feril með Keflavík og hún lék 45 landsleiki, varð fjórum sinnum Íslandsmeistari, þrisvar sinnum bikarmeistari og fimm sinnum deildarmeistari með Keflavík. Þá var hún átta sinnum valin í úrvalslið ársins í efstu deild kvenna og svo á hún bæði Íslandsmeistaratitil og bikar með Snæfelli sem hún lék með í tvö ár.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hver var fyrsti leikurinn þinn og hver var síðasti?

Ég er ekki alveg klár hver var fyrsti leikurinn minn. Það er svo langt síðan það var en hann var spilaður haustið 2003. Síðasti leikurinn minn í deildinni var spilaður á móti Val í úrslitakeppni en allra síðasti leikurinn minn var á móti Kýpur 1. júní 2019 á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi.

Hvað spilaðir þú marga leiki í heild í efstu deild, hvað skoraðir þú mörg stig?

Það er erfitt að fá mjög nákvæmt svar þar sem það vantar inní þessar tölur meistara meistaranna og aðra leiki fyrir utan deildina og sjálfan úrslitaleikinn í bikarnum og eins er það með stigin.

En ég spilaði 364 deildarleiki og níu bikarúrslitaleiki og þá vantar inn í það heildarfjöldann fram að úrslitaleik sem ég er ekki með. Stigin urðu 4033 í deildinni en ég er ekki með heildina.

Eftirminnilegasti leikurinn?

Það eru margir leikir eftirminnilegir og erfitt að velja en þegar ég varð Norðurlandameistari með U16 2004 kemur upp í hugann. Þau árin sem ég vann tvöfalt var alltaf góð tilfinning og þá sérstaklega úrslitakeppnin við Hauka 2016, hún var mögnuð. Verð líka að nefna landsleikinn við Ungverjaland hér heima í febrúar 2016 sem við unnum, það var góð tilfinning.

Erfiðasti mótherjinn?

Það kemur engin upp svona í fljótu bragði, kannski bara Birna Valgarðs. Það var alltaf erfitt að dekka hana á æfingum öll þessi ár sem við spiluðum saman.

Hvernig líst þér á Keflavíkurliðið í dag og framtíð kvennaboltans hjá þínu gamla liði?

Auðvitað líst manni alltaf vel á liðið sitt en það vantar samt sem áður alltaf leikmenn sem er tilbúnir að taka af skarið og láta í sér heyra. Við þurfum jafnt leikmenn með góða tækni og karaktera sem eru tilbúnir að henda sér á eftir öllum boltum og öskra á liðið áfram.