Íþróttir

Linli Tu tryggði sigur á Selfyssingum
Linli Tu skoraði sigurmark Keflvíkinga með góðu langskoti. VF/Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 22. maí 2023 kl. 23:44

Linli Tu tryggði sigur á Selfyssingum

Keflavík og Selfoss mættust í fimmtu umferð Bestu deildar kvenna á gervigrasinu Reykjanesbæ í kvöld. Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum en mark Linli Tu á 34. mínútu sá til þess að Keflavík tók öll stigin.

Það var jákvæður bragur á leik Keflvíkinga í kvöld, öflugur varnarleikur skóp sigurinn en Selfoss náði varla að skapa sér færi í leiknum.

Public deli
Public deli

Mark Keflvíkinga kom þegar þær unnu boltann á miðjum vellinum, sóttu hratt og boltinn barst til Linli Tu sem sá að markvörður Selfyssinga var staðsettur framarlega. Linli lét þá bara vaða af dágóðu færi og varnarlaus markvörðurinn gat ekkert aðhafst nema horft á boltann svífa yfir sig og í netið (34').

Keflavík hafði ágætis stjórn á leiknum og náði að stöðva alla sóknartilburði gestanna þótt þeir hafi pressað stíft síðustu mínúturnar. Það voru hins vegar Keflvíkingar sem voru óheppnar að skora ekki annað mark þegar yngsti leikmaðurinn á vellinum, Alma Rós Magnúsdóttir, kom boltanum á Elfu Karen Magnúsardóttur í teig Selfoss. Elfa tók boltann viðstöðulaust og skaut bylmingsskoti sem hafnaði í þverslánni.

Það leit út fyrir að Elfa Karen væri að gulltryggja sigurinn en skotið hafnaði í þverslánni.

Með sigrinu skaust Keflavík upp í fimmta sæti deildarinnar en tveir leikir verða leiknir á morgun og staðan gæti breyst örlítið.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttaritari Víkurfrétta, ræddi við Ölmu Rós eftir leik og er í spilaranum hér að neðan. Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.

Keflavík - Selfoss (1:0) | Besta deild kvenna 22. maí 2023