HSS
HSS

Íþróttir

Kortleggja körfuna
Hlaðvarpið taka þeir félagar upp í kennslustofu Myllubakkaskóla þar sem Jói kennir og Svenni er fyrrverandi kennari við skólann. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 10. nóvember 2023 kl. 06:27

Kortleggja körfuna

Keflvíkingarnir Sveinn Ólafur Magnússon og -Jóhann Steinarsson fengu hvor í sínu lagi hugmynd að hlaðvarpi sem væri ágrip af sögu körfuknattleiks á Íslandi. Þetta eru menn framkvæmda og í sameiningu hófust þeir handa og gefa nú út hlaðvarpið Tvígrip – karfan kortlögð þar sem þeir rekja sögu körfunnar á Íslandi frá árinu 1989.

Þeir Sveinn og Jóhann eru báðir harðir Keflvíkingar og áhugamenn um körfuknattleik. „Körfubolta-áhuginn er ekkert brjálæðislegur hjá mér núna en á þessum tíma fylgdist ég ógeðslega mikið með körfubolta, á unglingsárunum og frameftir,“ segir Jóhann í upphafi spjalls okkar. „Eðlilega, því Keflvíkingar voru bestir á landinu.

Svo fór maður að hlusta á þátt sem heitir Svona er sumarið, þar sem er verið að fara í gegnum hvert fótbolta-sumar á fætur öðru og þá fannst manni vanta svona um körfuna. Þá kom þessi hugmynd hjá mér ... og Svenna – í sitthvoru lagi.“

Katrín Jakobsdóttir forsetafr
Katrín Jakobsdóttir forsetafr

„Við unnum saman og vorum báðir með sömu hugmyndina. Ég var byrjaður að vinna í henni og var kominn með drög að fyrsta handritinu. Þegar við Jói fórum svo að tala um þetta spurði hann: „Af hverju við gerum þetta ekki saman?“ Þannig að við fengum hugmyndina í sitthvoru horninu en framkvæmdum hana saman,“ segir Sveinn sem hefur verið virkur í körfubolta í gegnum árin. „Ég æfði körfu, var að dæma og þjálfa í dag.“

Jóhann Steinarsson og Sveinn Ólafur Magnússon eru umsjónarmenn hlaðvarpsins Tvígrip – karfan kortlögð.

Byrja þegar útlendingarnir voru leyfðir aftur

Eruð þið að fara yfir körfuboltann á Íslandi eða eruð þið svæðisbundnir við Suðurnesin?

Þeir félagar segja að þættirnir taki fyrir sögu efstu deildar karla á Íslandi; „en kannski slæðist eitthvað meira inn af Suðurnesjum. Það er þá bara af því að við erum betur tengdir inn í söguna hér suður frá en við reynum að gera öllu skil,“ segir Jói.

„Við ákváðum að byrja ‘89, þegar útlendingar voru leyfðir aftur í körfunni á Íslandi,“ segir Svenni. „Við hefðum getað farið ennþá lengra aftur en ákváðum að hafa þetta sem útgangspunkt.

Það hefði verið hægt að byrja tímabilið á undan þegar Keflavík var Íslandsmeistari.“

„Í staðinn byrjum við þegar Keflavík lendir í smá veseni,“ bætir Jói við.

Þeir hafa fengið fyrrum leikmenn eins og Jón Kr. [Gíslason], Gunnar Örlygs og Svala Björgvins í spjall í þáttunum. „Við höfum reynt að taka einhverja aðalleikendur á þessum tímabilum inn í þættina og munum gera það áfram,“ segir Sveinn.

Jón Kr. Gíslason reynir að stoppa Frank Booker. Mynd úr safni VF

Eruð þið bara að taka fyrir karlaboltann eða fjallið þið um konurnar líka?

„Nei, við einbeitum okkur að körlunum núna,“ segja þeir báðir; „en hvað við gerum seinna á eftir að koma í ljós. Kannski tökum við kvennakörfuna fyrir líka.“

Þættirnir af Tvígripi eru orðnir fjórir talsins en þeir Svenni og Jói segjast ætla að gefa út fimm þætti fyrir jól og aðra fimm eftir áramót.

„Fara svo í sumarfrí, við erum kennarar og þurfum okkar sumarfrí,“ segja þeir og hlæja. „Þetta passar líka ágætlega við tímabilið í körfunni. Fyrsti þáttur kom út þegar körfuboltinn var að byrja og þegar við verðum búnir með tíu þætti þá er úrslitakeppnin u.þ.b. búin.“

Tíðarandinn skín í gegn

Hlaðvarpsþættirnir hafa fengið fínar viðtökur segja umsjónarmennirnir en þeir vissu ekki við hverju þeir máttu búast þegar þeir byrjuðu.

„Okkur finnst viðbrögðin vera góð,“ segja þeir báðir. „Fjórði þátturinn var að fara í loftið og okkur sýnist áheyrnin vera nokkuð góð. Í fyrstu vissum við ekkert hvað margir myndu hlusta á þetta, bjuggumst jafnvel bara við þrjátíu, fjörutíu manns. Flestir sem við höfum talað við segja þetta vera skemmtilega hlustun. Þetta eru líka þættir sem auðveldlega hægt er að taka í pörtum, þú þarft ekkert að hlusta á heilan þátt í beit,“ segir Svenni og Jói bætir við: „Þetta er gömul saga, hún fer ekki neitt – en það er mikilvægt að halda utan um söguna.“

„Við erum fyrst og fremst að þessu fyrir okkur sjálfa,“ segir Svenni. „Það er körfuboltaáhuginn og áhugi á sögu almennt sem keyrir okkur áfram, bara að koma þessu frá okkur.“

Það hlýtur að liggja gríðarleg vinna að baki þessu, eruð þið komnir með beinagrind að öllum þáttunum?

„Ekki alveg kannski en hver þáttur tekur fyrir eitt tímabil. Við byrjum nýjan þátt þar sem síðasta tímabil endar. Við rennum í gegnum blaðagreinar og tökum út það sem okkur finnst eiga erindi í þættina. Þetta er tólf mánaða tímabil sem við förum yfir nær yfir deildarkeppnina, úrslitakeppnina, bikarkeppnina og landsliðsverkefni. Svo tökum við tíðarandann aðeins fyrir í upphafi þáttanna, hvað var að gerast í þjóðfélaginu.“

Þessir þættir eru svolítið langir, hvað var síðasti þáttur – fjórir tímar?

„Fyrsti þáttur var um tveir tímar, næsti rúmir þrír og sá þriðji fjórir tímar,“ segir Jói. „Það var kannski svolítið mikið en veltur mikið á hvað var að gerast. Það var svolítið drama í þeim þætti.“

„Já, það fer svolítið eftir því hvað er að gerast, við erum ekki að fara yfir úrslit frá leik til leiks. Stiklum á stóru yfir tímabilið,“ bætir Svenni við.

„Útlendingarnir eru svolítið fyrirferðarmiklir. Það er mikið fjallað um það í blöðunum þegar þeir eru að skipta um félög,“ segir Jói.

„Talandi um tíðarandann þá er t.d. alltaf tekinn fram hörundslitur erlenda leikmannsins sem um ræðir á þessum árum,“ segir Svenni.

„Það er ótrúlegt að lesa þetta,“ segir Jói. „Á fyrsta tímabilinu er bara sagt blökkumaður gekk í þetta eða hitt liðið. Það er alltaf tekið fram ef leikmennirnir eru svartir.“

„Við vorum feimnir við þetta fyrst en þetta stendur svona í blöðunum,“ segir Svenni. „Þetta er strax farið að minnka núna tímabilið ‘92–’93.“

Á þessum tíma var alltaf tekinn fram hörundslitur erlenda leikmannsins sem um ræðir í blöðunum. Mynd úr safni VF

Hafa menn eitthvað verið að setja ofan í ykkur með það sem þið eruð að setja fram í þáttunum?

„Nei, nei,“ segja þeir samhljóða. „Við höfum hins vegar fengið að heyra margar sögur sem við megum ekki segja,“ segir Svenni. „Það eru sögur sem þola illa dagsins ljós og við erum beðnir að vinsamlega ekki tala um þetta,“ segir Jói. „Við fengum smá punkt við þriðja þátt, að hann hafi verið í það lengsta. Við hefðum getað haft hann lengri, það var mikið að gerast á því tímabili, en við sjóumst í þessu og lærum jafnóðum.“

Tíminn er fljótur að fara

Þeir segjast fyrst og fremst vera að gera þetta fyrir sig sjálfa en að baki hverjum þætti liggum mikil vinna.

En hvað fer mikil vinna í hvern þátt, hafið þið tekið það saman?

„Í fyrsta handritið fóru tvær vikur,“ segir Svenni sem var byrjaður að vinna að handriti þegar samstarfið hófst. „Ég var svona frá sjö til ellefu að kvöldi. Svo breytti ég um takt því ég pikkaði allt upp, las viðtöl og pikkaði þau inn. Núna tökum við bara ljósrit og litum með yfirstrikunarpenna yfir það sem skiptir máli og við ætlum að lesa upp.

Ég finn til greinarnar og klippi þær til, sendi svo á Jóa sem les yfir þær og svo finnum við útúrdúra á hinu og þessu.“

„Þetta fyrirkomulag hentar mjög vel,“ segir Jói. „Þetta er fín samvinna. Svenni er sögumaður og ég kem með spurningar og punkta út frá því sem hann er að lesa og segja frá.“

Þeir segjast njóta liðsinnis fyrirtækja eins og Humarsölunnar, Bílasölu Reykjaness, Margt smátt, Litla brugghússins í Garði og 1966 ehf. við gerð hlaðvarpsins. „Við erum líka í smá samstarfi við Körfuna [Karfan.is], þeir deila þáttunum okkar. Svo er það líka hlaðvarpið Endalínan, þeir sem eru með það hjálpa okkur mikið.“

Af hverju völduð þið nafnið Tvígrip?

„Sá fyrsti sem ætlaði að vera með mér í þessu kom með nafnið,“ segir Svenni. „Tvígrip er úr körfubolta og ágrip er eitthvað sem við segjum frá – þannig kemur nafnið til.“

„Fóstursonur minn hannaði lógóið og konan mín kom með slagorðið, karfan kortlögð, hún er svolítið nösk í stuðlum og höfuðstöfum,“ segir Jói. „Þetta er samvinna frá mörgum.“

„Við fengum líka ráðleggingar frá þeim sem er með Svona er sumarið, hann sagði okkur að kalla þetta ekki Svona er körfuboltinn eða eitthvað svoleiðis,“ segir Svenni.

Er ekki gaman að grúska í þessu?

„Jú, ótrúlega gaman,“ segir Svenni. „Það eina er að ég er svo mikill sögunörd og leiðist alltaf út í að lesa eitthvað allt annað líka. Heimildavinnan sem ég er í núna er frá sama tíma stríð geysar í Júgóslavíu og skyndilega er ég farinn að lesa mér til um eitthvað allt annað en körfubolta. Ég hef samt reynt að setja það sem ég finn til hliðar til að lesa síðar, einbeita mér að þessu. Annars er tíminn fljótur að fara.“

Svenni að lesa upp úr glósunum.

Hafið þið hugmyndir að fleiri hlaðvörpum þegar þið eruð búnir með þetta?

„Ekkert ákveðið,“ segir Jói. „Kannski eitthvað hliðar, eitthvað tengt þessu. Hugmynd að tala við eða um einhvern ákveðinn körfuboltamann.“

Svenni segir að þeir hafi í raun ekkert leitt hugann að því. „Við vitum ekki hversu nálægt við ætlum að fara tímanum í dag – en það má ekki vera of nálægt. Við nennum ekki að fjalla um tímabilið í fyrra, það nennir enginn að hlusta á það.

„Kannski tökum við fyrir dómarastarfið í gegnum tíðina, hvernig það hefur breyst. Við höfum tekið eftir því hvernig dómarar fengu að heyra það hérna áður fyrr. Það er bara nýtilkomið að dómarar eru látnir vera, það er eins og eitthvað hafi gerst.“

„Það var þvílíkt verið að hrauna yfir þá í blöðunum,“ segir Jói. „Ekkert dregið undan. Núna má ekkert segja um dómara.“

Jói í hljóðverinu.

Tímabilið í ár

Þið fylgist ennþá með körfunni, hvernig finnst ykkur þetta tímabil fara af stað?

„Allt í lagi,“ segir Jói.

„Ég veit ekki hvað maður á að segja,“ segir Svenni mæðulega. „Það er bara mikið af útlendingum. Ef maður ætlar að vera við toppinn þá þarftu erlenda leikmenn, það er bara þannig.“

Þá er kannski eðlilegt að spyrja ykkur að lokum út í umræðuna sem Gunnar Örlygs kom af stað. Hvað ykkur finnst um sameiningu félaganna Keflavíkur og Njarðvíkur?

„Það er eitt í því, viljum við missa svona leiki eins og bikarleikinn um daginn? Ég veit eiginlega ekki alveg hvað mér finnst um það,“ segir Svenni.

„Ég er meira fótboltalega þenkjandi,“ segir Jói. „Ég held að það væri skynsamlegra að sameina þar. Ég held að það séu minni peningar í körfunni, enda miklu færri einstaklingar.“

Keflvíkingar fagna sigri eftir bikarslaginn gegn Njarðvík í síðasta mánuði.

Hlaðvarpið Tvígrip – karfan kortlögð er aðgengilegt á helstu streymisveitum og ætti áhugafólk körfubolta að hafa gaman af því að rifja upp gamla tíma.