Flugger
Flugger

Íþróttir

Kona sem nennti ekki að hlaupa
Kristjana á Hyrox-móti í Kaupmannahöfn fyrr á þessu ári. Myndir úr safni Kristjönu
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 25. maí 2024 kl. 07:22

Kona sem nennti ekki að hlaupa

Kristjana Gunnarsdóttir var markvörður í handbolta, henni fannst svo leiðinlegt að hlaupa, en eftir að handboltaferlinum lauk hefur hún einbeitt sér að keppni í allskyns þrekíþróttum sem innihalda meðal annars hlaup. Kristjana, eða Kiddý eins og flestir þekkja hana, tekur reglulega þátt í þrekmótum víðsvegar um heiminn með góðum árangri og hefur m.a. slegið heimsmet þrisvar sinnum í sínum aldursflokki. Núna er hún farin að einbeita sér að nýrri íþróttagrein sem nefnist Hyrox og virðist ætla að verða næsta æðið í þrekmótaheiminum.

Nýtt æði í uppsiglingu

Fimm Íslendingar hafa unnið sér inn rétt til þátttöku á heimsmeistaramótinu í Hyrox og af þeim koma fjórir af Suðurnesjum. „Við vorum þrjár sem kepptum á heimsmeistaramótinu í fyrra og við erum fjórar núna,“ segir Kristjana sem heyrði fyrst af Hyrox þegar Covid-faraldurinn reið yfir og allt keppnishald fór úr skorðum. „CrossFit er búið að vera mikið æði hér á Íslandi og Hyrox virðist ætla að verða næsta æði í þrekmótaheiminum. Þetta er ný bylgja sem er að fara af stað. Ég sé þetta vera að gerast en við höfum verið að æfa fyrir Hyrox í rúm þrjú ár og höfum keppt í tvö ár en núna er fólk allt í einu að uppgötva þetta.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kristjana segir að fjölmargir séu við það að stökkva á vagninn, sér í lagi vegna þess að aðgengi að keppnunum er tiltölulega gott en keppt er í mörgum löndum víðs vegar um heim.

„Það sem mér finnst jákvætt við þetta sem líkamsræktaræði er að þetta snýst ekki um það hvernig þú lítur út, þetta snýst um hvað þú getur. Það er alls konar fólk sem keppir í Hyrox, þú sérð fólk í brjálæðislega góðu formi, sem er að keppa á einhverjum heimsmeistaratímum og svo sérðu líka byrjendur sem eru að stíga sín fyrstu skref í keppni. Fólk af öllum stærðum og gerðum.

Mótin í Hyrox eru haldin í mjög stórum sýningarhöllum, ég var t.d. að keppa í Rotterdam nýlega og þá var mótið haldið í Ahoy-höllinni sem Eurovision var haldið. Keppendafjöldi í hverju móti er mismunandi en í þeim keppnum sem ég hef tekið þátt í þá eru þetta um 3.500 til 5.500 keppendur, metið eru þó um 12.000.

Hyrox er þýsk keppni en uppsetning og skipulag keppninnar er mjög góð eins og Þjóðverja er siður. Ég hitti eiganda keppninnar þegar ég fór fyrst út og spjallaði við hann. Keppnin hefur stækkað gríðarlega mikið síðan 2022 og algengt er að uppselt sé í keppnir. Ástæða þessara vinsælda tel ég vera að konseptið er gott og þú þarft ekki mikinn tækjabúnað en einnig inniheldur hún ekki tæknilega flóknar æfingar svo að hún höfðar til margra. Góðir hlauparar gætu t.d. hoppað inn í keppnina og staðið sig vel, en betra væri þó að æfa líka styrktarþjálfun svo árangurinn verði enn betri.“

Fyrsta heimsmet Kristjönu, Birmingham 2022.

Hafið þið verið að leiðbeina fólki með þetta? 

„Ekki beint. Í kringum mig er tíu manna vinahópur sem er með frábæran sal uppi í Sporthúsi þar sem við æfum okkur nánast á hverjum morgni sérstaklega fyrir Hyrox. Þannig að þetta er svolítið lokað eins og er, en að sjálfsögðu er umræðan komin í gang í Sporthúsinu, en það er bara á byrjunarstigi.  Sporthúsið býr yfir öllum þeim búnaði sem þarf til að æfa fyrir Hyrox.“

Hvað gerir Hyroxkeppni frábrugðinni CrossFit-keppni?

„Þetta er alltaf keppni í stöðluðum greinum og inniheldur ekki tæknilega flóknar æfingar eins og oft er að finna í Crossfit. Það má líkja Hyrox-keppni við að þú farir í maraþon á milli borga, maraþon er alltaf 42,2 kílómetrar, sama hvar þú ert. Brautin er alltaf eins, sama hvar þú ert, eina sem er öðruvísi þegar þú ert í annarri borg eða öðrum sal er að uppröðunin getur verið önnur. Fimmtíu prósent af keppninni eru hlaup/ganga og fimmtíu prósent æfingar (Skierg, ýta sleða, draga sleða, burpeshopp, róður, bóndaganga, framstigsganga og wall ball). Þetta eru átta greinar, þeim er raðað í miðju salarins og svo er eins kílómetra langur hlaupahringur í kringum svæðið. Þannig að þú hleypur hringinn og fer svo inn í svæðið til að gera æfingu. Þegar þú klárar æfinguna hleypur þú hring og fer svo inn á annað svæði og svo koll af kolli. Keppendur eru með flögu á sér og ef þeir fara inn á vitlaust svæði fá þeir þriggja mínútna refsingu. Þú kemst ekkert upp með það að svindla. Í CrossFit-keppni veist þú sjaldnast hvaða æfingar eru í hverri keppni en þar er oft reynt að koma keppendum á óvart með einhverju nýjum æfingum.  Fyrir hinn venjulega líkamsræktariðkanda þá væri Hyrox-keppni í raunhæfari til að stefna að að ég tel, en auðvitað er þetta mismunandi á milli manna hvað hentar.“

Ef þú getur gengið þá getur þú tekið þátt

Kristjana segir að fyrirkomulag Hyrox bjóði upp á að keppnin höfði til fólks í mismunandi líkamsástandi. Í Hyrox sérð þú íþróttafólk af öllum stærðum og gerðum. „Ég tek sem dæmi tvær konur sem tóku þátt í parakeppninni í síðasta móti sem ég var að keppa í með dóttur minni en þær voru í mikilli yfirþyngd og fóru ekki hratt yfir en þær gerðu sínar æfingar, gengu alla hringina og kláruðu keppni með bros á vör. Það var rosalega flott hjá þeim og þær fengu góða hvatningu við æfingarnar. Ég dáist af árangri þeirra en það er bjútíið við þetta fyrirkomulag, það stendur engin upp úr fjöldanum á meðan á keppni stendur, sama hvort viðkomandi sé með besta tímann eða lakasta tímann.

Upplifunin sem fólk fær af Hyrox-keppni er að vera hluti af frábærri stemmningu einstaklingur sem hefur kannski það markmið að klára mótið getur verið með þeim sem er á besta tímanum í hlaupabrautinni á sama tíma – það sér það enginn í raun og veru hvort þú ert í síðasta sæti eða fyrsta sæti á meðan þú ert að keppa.“

Þannig að sama skapi veist þú sem keppandi ekki úrslitin fyrr en mótið er búið.

„Nei, eins og í Rotterdam þá var ég í öðrum ráshóp og var ræst út klukkan 12:20, svo var ræst út á tíu mínútna fresti og síðasti ráshópur fór af stað rétt fyrir þrjú. Það voru 582 konur sem kepptu og ég var stöðugt að uppfæra stöðuna. „Ókey, ég er ennþá í fyrsta sæti.“ Ég endaði í sjöunda sæti í opnum flokki hjá konunum en fyrsta sæti í mínum aldursflokki.

Keppnin er ekki tæknilega flókin, helmingurinn af henni er hlaup, eða ganga, og þ.a.l. nær hún til margra og er rosalega flott áskorun. Hægt er að keppa í einstaklings-, para- og liðakeppni. Það er mjög hvetjandi að hafa markmið í að auka þrek sitt og þol. Ég vil hvetja fólk til að einblína minna á kíló og sentimetra þegar stefnt er að bættri heilsu, spurðu sjálfan þig frekar hvað getur þú gert í dag og hvað langar þig til að geta gert síðar varðandi þol, styrk og liðleika. Þegar þú nærð árangri í þessum þremur þáttum þá er mjög líklegt að kílógrömm og sentimetrar verða ekki aðal fókusinn. Þegar þú keppir í Hyrox getur þú séð heildarárangur þinn og árangur í hverri grein fyrir sig og borið hann saman við alla sem keppt hafa í Hyrox og þinn eigin tíma ef þú hefur keppt áður. Þú keppir með flögu sem gefur þér splitttíma á hverri grein fyrir sig (splitttími er tíminn frá því að keppandi fer út úr hlaupabrautinni til að gera æfingu og þar til hann fer aftur út á hlaupabrautina). Þetta er mjög hvetjandi og fær þig til að setja markið hærra.“

Hvernig er það, nú hafið þið Fimm fræknu verið ansi lengi í svona kraftakeppnum, er það ekki?

„Já, við erum flestar búnar að vera að síðan í kringum 2000 en þá byrja eiginlega þessar þrekkeppnir á Íslandi. Við kepptum í Þrekmeistaranum á Akureyri tvisvar á ári og svo kom Þrekmótaröðin í framhaldi af því sem var fjórum sinnum á ári, síðan hætti Þrekmeistarinn en Þrekmótaröðin hélt áfram. Svo misstu þeir eitthvað dampinn með Þrekmótaröðina og hún hætti 2017 minnir mig. Þá stendur maður allt í einu uppi með það að vera búin að þrífast á svona keppnum í þetta langan tíma og þurfa að leita annað.

Bretar eru kolgeggjaðir í allskonar svona keppnum og þeir hafa t.d. tekið Hyrox upp á næsta „level“. Það er kjaftfullt í allar keppnir hjá þeim og selst jafnvel upp í mótin samdægurs. Nú við vildum keppa meira og ég hafði verið í sambandi við fólk sem ég hafði kynnst árið 2007 þegar ég keppti í Dubai út á þann árangur sem ég hafði náð í mótum hér heima. Við fórum svo að taka þátt í minni keppnum úti í Bretlandi svona tvisvar á ári. Síðan kom Covid og allt hrundi niður en þá sá ég að einn af þessum Bretum sem ég var búin að kynnast tók þátt í einhverju sem heitir Hyrox. Nú, ég sendi honum póst og spurði hvort þetta væri ekki eitthvað fyrir mig. „Jú, þú yrðir geðveikt góð í þessu. Þetta er svo mikið hlaup og svo æfingar inn á milli. Þú ættir að kíkja á þetta.“

Það var 2021 sem ég sé þetta fyrst en þá var Covid í gangi svo þá gat maður ekki farið af stað. Við fórum svo allar 2022 og þrjár okkar unnu sér inn þátttökurétt á heimsmeistaramótið 2023, Ásta Katrín Helgadóttir og Árdís Gísladóttir í parakeppni 50–59 ára og ég í fer inn sem einstaklingur, það voru meira að segja tveir aðrir Íslendingar sem kepptu á heimsmeistaramótinu í fyrra. Núna erum við aftur búnar að vinna okkur réttinn til að keppa í HM Hyrox 2024 og förum til Nice núna í júní þar sem ég er að fara í einstaklingskeppnina og þær keppa í parakeppni 60+. Síðan bættust tvö við núna. Jóhanna Júlía Júlíusdóttir, CrossFit-stelpa sem hefur verið mjög framarlega hér á Íslandi og á m.a. Íslandsmetið í armbeygjum sem hún setti í Skólahreysti og enginn hefur getað slegið, held að það hafi verið 177 armbeygjur eða einhver sturluð tala. Hlauparinn Sigurjón Ernir Sturluson hefur líka tryggt sér sæti svo við verðum líklegast fimm héðan frá Íslandi á heimsmeistaramótinu í ár.“

Fimm fræknar í Birmingham 2022.

Þú ert að þjálfa uppi í Sporthúsi, er þetta þá ekki næsta námskeið sem verður sett á laggirnar?

„Það gæti alveg verið, þetta er spurning hvort maður hafi tíma,“ segir Kristjana og hlær. „Nei, ef þau fara af stað þá mun ég að sjálfsögðu hjálpa til við að draga vagninn. Ég er núna með námskeið í Sporthúsinu sem heitir Heilsurækt fyrir konur en það er mjög gefandi að hvetja fólk áfram í að efla heilsu sína. Fólk sér ekki alltaf sjálft styrkleika sína og því er ég ófeimin við að benda fólki á þá því allir geta eitthvað  það er nokkuð ljóst. Það skiptir miklu máli að fá hvatningu og hún getur svo sannarlega komið þér lengra. Það kostar ekkert að hvetja aðra áfram en það gefur svo ótrúlega mikið.“

Að æfa þessa íþrótt krefst ekki mikils tækjabúnaðar en þegar maður er farinn að keppa er þetta þá ekki farið að kosta eitthvað, að maður tali ekki um þegar verið er að keppa erlendis?

„Auðvitað er kostnaður á bak við ferðalög og keppnir en það má flétta saman keppnir og skemmtun í góða helgarferð. Þetta er val og ég vel að fara í keppnisferðir ef ég hef kost á því.

Við erum margar í mínum aldursflokki sem erum ansi góðar en maður þarf að halda sér á tánum til þess að geta verið í fremstu röð. Um leið og hlutirnir eru orðnir stærri þá fara fleiri gamlir íþróttamenn að detta inn í þetta og því mun Heimsmeistaramótið í ár vera mun sterkara en í fyrra. Ég varð í öðru sæti á Heimsmeistaramótinu í fyrra og stefni ég að sjálfsögðu á pall á ný. Það er erfiðara aðgengi okkar hér frá Íslandi að sækja keppnir miðað við t.d. vini mína sem búa í Bretlandi eða Þýskalandi en þeir geta auðveldlega stokkið upp í bíl eða lest og keppt víðsvegar án mikillar fyrirhafnar. Maður væri alveg til í að vera í þeirra stöðu því auðvitað kemur keppnisreynsla manni líka lengra áfram.“

Þegar Kristjana er spurð hver sé hennar bakgrunnur í íþróttum segist hún hafa verið handboltakona. „Ég var í marki. Kona sem nennti ekki að hlaupa, fannst það hundleiðinlegt,“ segir hún og hlær að hugmyndinni. „Ég spilaði fyrst með Reyni Sandgerði, síðan með Keflavík en svo fór ég í Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og lék þá með Selfossi. Þegar ég kom svo til baka var búið að leggja meistaraflokkinn í Keflavík niður. Þá fóru nokkrar í FH en áhuginn var einhvern veginn farinn hjá mér. Þá lá leiðin í ræktina og byrjaði ég eiginlega strax að kenna í líkamsræktarstöðinni Perlunni. Ég kenndi í nokkur ár í Perlunni en fór svo yfir í Lífsstíl og þegar ég var komin þangað byrjaði þetta þrekmótadæmi hjá mér.“

Kristjana í parakeppnni með Sunnu Líf, dóttur sinni.

Spennufíkn

„Mér hefur alltaf þótt gaman að keppa en mér þótti ekki alltaf jafn gaman að æfa fyrir keppnir.  Þegar ég var í handboltanum bjó ég ekki yfir þeim aga sem ég bý yfir í dag en það breyttist þegar ég fór að keppa í þrekmótum. Ég var ekkert endilega að nenna að leggja neitt aukalega á mig, ég var í úrtakshóp fyrir landsliðið í handbolta en komst ekki lengra en það því mig vantaði klárlega að átta mig á því að þú þarft að leggja á þig aukaæfingu til að skara fram úr.  Þegar þrekmótin fóru að detta inn byrjaði ég að hlaupa, lyfta og taka ábyrgð á sjálfri mér og mínum árangri.

Ég byrjaði að keppa í liðakeppnum og fór svo að bæta við parakeppni með Vikari Sigurjónssyni ásamt því að keppa sem einstaklingur. Stundum keppti maður í þremur keppnum sömu helgi.  Þetta eru mjög ólíkar keppnir og reyna á þig á ólíkan hátt. Ég var líka dugleg að taka þátt í hinum ýmsu hlaupum en sá grunnur hefur hjálpað mikið í Hyrox-keppnunum í dag.

Ég fæ mikla útrás í þessum keppnum en það er svo gaman að sigrast á einhverju og þá sérstaklega á sjálfum sér. Sumum finnst leiðinlegt í ræktinni en mér finnst aldrei leiðinlegt því þegar þú ert að vinna að ákveðnu marki þá er það svo mikill drifkraftur sem keyrir mann áfram. Það er spennan, þetta er hálfgerð spennufíkn.“

Kristjana segir að það sé tvennt ólíkt að æfa einn eða í hóp en það sé gott að vera sjálfstæður. „Að geta farið sjálfur og tekið æfingu óháð öðrum er nauðsynlegt en það er náttúrulega ofboðslega gott að eiga góða að og ég er svo heppin með að eiga frábæra æfingafélaga. Ég segi alltaf að þetta eru einstakar konur og við erum ótrúlega staðfastar. Við mætum oftast alla morgna nema sunnudaga, þá leyfum við okkur að gera eitthvað annað. Annars mætum við sex daga vikunnar og það er ekkert „ég nennti ekki“ eða „ég ákvað að sofa aðeins lengur“. Þú mætir bara, þetta er eins og að bursta tennurnar. Félagsskapurinn hefur auðvitað mikið að segja, það er bara þannig,“ sagði kraftakonan að lokum.

Heimsmet í Rotterdam.