Nýsprautun flutt
Nýsprautun flutt

Íþróttir

Keyrðu yfir Fjölni í seinni hálfleik
Hulda María Agnarsdóttir er að vaxa sem leikmaður meistaraflokks. Hún átti fínan leik í gær og var með átta stig gegn Fjölni. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 2. nóvember 2023 kl. 08:20

Keyrðu yfir Fjölni í seinni hálfleik

Njarðvík gerði góða ferð í Grafarvoginn í gær og unnu góðan sigur á Fjölni í Subway-deild kvenna í körfuknattleik. Eftir jafnan fyrri hálfleik tóku Njarðvíkingar öll völd á vellinum og höfðu að lokum fimmtán stiga sigur.

Fjölnir - Njarðvik 61:76

Fjölniskonur byrjuðu betur og náðu fimm stiga forystu í fyrsta leikhluta (20:15). Annar leikhluti var öllu jafnari en þó juku heimakonur muninn um eitt stig og staðan 41:35 í hálfleik.

Þegar þriðji leikhluti hófst höfðu Fjölniskonur því sex stiga forystu en þá skellti vörn Njarðvíkur í lás og hélt sókn heimakvenna í skefjum

Njarðvík byrjaði seinni hálfleik með látum. Fyrst setti Tynice Martin niður þrist, Jana Falsdóttir gerði slíkt hið sama og Andela Strize setti niður þriðja þristinn. Strize kom svo Njarðvík yfir í næstu sókn og kom Njarðvík í forystu (45:46). Eftir þetta var jafnræði á með liðunum en Njarðvíkingar leiddu með tveimur stigum fyrir fjórða leikhluta (53:55).

Í síðasta leikhlutanum gerðu Njarðvíkingar út um leikinn. Fjölnir náði einungis að gera átta stig á meðan Njarðvík skoraði 21 til að landa öruggum fimmtán stiga sigri að lokum.

Andela Strize var stigahæst með tuttugu stig, þrjú fráköst og fjórar stoðseningar, næst henni var Tynice Martin með sautján stig en hún tók jafnframt sjö fráköst og átti tvær stoðsendingar. Ena Viso 11/3/4, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 10/2/2, Hulda María Agnarsdóttir 8/2/1, Jana Falsdóttir 7/5/7, Krista Gló Magnúsdóttir 2/0/1, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 1/2/1, Sara Logadóttir 0/1/0.