Íþróttir

Keflvíkingar yfirspilaðir á Ásvöllum
Okeke var stiga- og framlagshæstur hjá Keflavík. Myndir úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 10. febrúar 2023 kl. 09:13

Keflvíkingar yfirspilaðir á Ásvöllum

Keflvíkingar mættu eitthvað illa stemmdir til leiks þegar þeir léku gegn Haukum á Ásvöllum í Subway-deild karla í körfuknattleik í gær. Eftir jafnan fyrsta leikhluta gerðu heimamenn út um leikinn í öðrum leikhluta og yfirspiluðu andlausa Keflvíkinga. Staðan í hálfleik 44:33.

Í seinni hálfleik var Keflavík alltaf að elta og var aldrei líklegt til að ná að vinna upp muninn. Að lokum fór svo að Haukar unnu með sextán stigum (83:67).

Í liði Keflavíkur bar David Okeke af með 18 stig og 30 framlagspunkta, Hörður Axel Vilhjálmsson (12 stig) og Dominykas Milka (17 stig) komust honum næst, hvor með 18 framlagspunkta. Það vekur furðu að Eric Ayala fékk næstmesta spilatíma Keflvíkinga (26:43) en það skilaði þremur fráköstum og tveimur stoðsendingum, Ayala var stigalaus, hitti ekki í sex tilraunum, og tapaði boltanum þrisvar sinnum. Er óhætt að segja að hann hafi verið andlega fjarverandi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Eric Ayala sýndi ekkert í leiknum í gær.

Með tapinu getur Valur komist eitt á toppinn í kvöld þegar Valsarar mæta Þór í Þorlákshöfn. Þá geta Njarðvíkingar jafnað Keflavík að stigum en þeir mæta Grindvíkingum í Grindavík þar sem búast má við hörkuviðureign tveggja góðra liða. Grindavík vann fyrri leik liðanna á tímabilinu í Ljónagryfjunni. 

Haukar - Keflavík 83:67

(15:15, 29:18, 17:20, 22:14)

Keflavík: David Okeke 18/11 fráköst/4 varin skot, Dominykas Milka 17/11 fráköst, Horður Axel Vilhjalmsson 12/4 fráköst/5 stoðsendingar, Valur Orri Valsson 9/6 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 7, Igor Maric 2, Ólafur Ingi Styrmisson 2/4 fráköst, Magnús Pétursson 0, Nikola Orelj 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Yngvi Freyr Óskarsson 0, Eric Ayala 0.