Flugger
Flugger

Íþróttir

Keflvíkingar einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum
Sara Rún Hinriksdóttir var frábær í sigri Keflvíkinga í kvöld og var með 23 stig, fimm fráköst og fimm stoðsendingar. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 19. maí 2024 kl. 21:50

Keflvíkingar einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum

Njarðvíkingar með bakið upp við vegginn fræga

Keflavík vann annan leikinn í röð gegn grönnum sínum í Njarðvík þegar liðin mættust öðru sinni í úrslitum Subway-deildar kvenna í körfuknattleik nú í kvöld. Keflvíkingar hafa því stillt Njarðvíkingum upp við vegginn fræga en Njarðvíkurkonur að vinna næstu þrjá leiki ætli þær sér að hampa bikarnum.

Njarðvík - Keflavík 71:81

(24:30 | 19:14 | 13:20 | 15:17)

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Heimakonur komust í fimm stiga forystu í byrjun leiks (6:1) en Keflvíkingar náðu að snúa við taflinu og komust í níu stiga forystu (14:23) með þrjár og hálfa mínútu eftir af fyrsta leikhluta. Gestirnir höfðu sex stiga forystu þegar annar leikhluti fór í gang (24:30).

Keflvíkingar héldu svipaðri forystu þar til um miðjan annan leikhluta en góður kafli Njarðvíkinga breytti stöðunni úr 28:40 í 43:44. Njarðvíkingar á góðri siglingu og aðeins eitt stig á milli liðanna í hálfleik.

Njarðvík náði forystu í upphafi síðari hálfleiks en Keflvíkingar voru ekki á því að láta það viðgangast lengi og tveir þristar frá Söru Rún Hinriksdóttur og einn frá Daniela Wallen komu þeim sjö stigum yfir Njarðvík (50:57). Emelía Ósk Gunnarsdóttir setti niður fjórða þrist gestanna í þriðja leikhluta og breikkaði bilið í níu stig (55:64) en Emelie Hesseldal setti niður eitt vítaskot áður en þriðji leikhluti var allur (56:64).

Á meðan flest gekk upp hjá Keflvíkingum áttu Njarðvíkingar í miklum vandræðum.

Keflvíkingar náðu þó ekki að hrista Njarðvíkinga af sér og heimakonur gerðu hverja atlöguna að gestunum eftir aðra en þegar munurinn var kominn niður í svona fimm stig bættu Keflvíkingar í, lokuðu vörninni og juku muninn á ný.

Að lokum hafði Keflavík tíu stiga sigur (71:81) og eru nú með pálmann í höndunum því einn sigur í viðbót gerir þær að Íslandsmeisturum.

Andela Strize var með sautján stig í kvöld.

Hjá Njarðvík var Andela Strize stigahæst með 17 stig og þær Selena Lott og Emilile Hesseldal voru með 15 stig hvor. Isabella Ósk Sigurðardóttir 10 stig, Ena Viso 6 stig, Jana Falsdóttir 5 stig og Krista Gló Magnúsdóttir 3 stig.

Elisa Pinzan setur niður tvö af átján stigum sínum fyrir Keflavík.

Sara Rún Hinriksdóttir var öflug í liði Keflavíkur með 23 stig og næst á eftir henni var Elisa Pinzan með 18 stig. Thelma Dís Ágústsdóttir og Daniela Wallen voru með 10 stig hvor, Anna Ingunn Svansdóttir, Anna Lára Vignisdóttir og Emelía Ósk Gunnarsdóttir 6 stig hver og Eygló Kristín Óskarsdóttir 2 stig.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, fréttamaður Víkurfrétta, tók viðtöl eftir leik sem má sjá í spilurum hér að neðan. Myndasafn úr leiknum er neðst á síðunni.

Kristjana Eir Jónsdóttir, aðstoðarþjálfari Njarðvíkur
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur.
Sara Rún Hinriksdóttir, leikmaður Keflavíkur.

Njarðvík - Keflavík (71:81) | Önnur viðureign í úrslitum Subway-deildar kvenna 19. maí 2024