Íþróttir

Keflavík VÍS-bikarmeistari kvenna
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 23. mars 2024 kl. 21:04

Keflavík VÍS-bikarmeistari kvenna

Tvöfaldur keflvískur bikarsigur staðreynd

Keflavíkurkonur stigu á fjalir Laugardalshallarinnar á eftir karlaliðinu og mættu liði Þórs frá Akureyri, sem kom öllum öðrum en sjálfum sér á óvart í undanúrslitunum þegar þær unnu lið  Grindavíkur. Það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda, Keflavík vann 89-67 og tvöfaldur bikarsigur Keflvíkinga því staðreynd.

Lið Þórs sem er annað þeirra liða sem hafa unnið Keflavík í vetur, þær voru greinilega ekki mættar í Laugardalshöllina bara til að vera með, eftir rúmar fimm mínútur var staðan 10-13 fyrir þeim en Keflavík jafnaði með þristi frá Thelmu Ágústsdóttur og annar fylgdi frá Elisu Pinzan og hún setti líka sniðskot, staðan orðin 18-13 fyrir Keflavík og Þórsarar tóku leikhlé. Elisa var heldur betur heit í byrjun, var búin að nýta bæði þriggja stiga skot sín og þetta eina sniðskot. Skemmst frá því að segja að Þórskonur náðu ekki að bæta við stigi það sem eftir lifði opnunarleikhlutans á meðan Keflavík dritaði niður, 16 stig í röð frá þeim og staðan 26-13.

Stigaskorið dreifðist nokkuð jafnt á þær keflvísku, Pinzan stigahæst með 8 stig, tvær komnar með 5, tvær með 3 stig og ein búin að setja 2 stig.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þórskonur opnuðu annan leikhlutann með þristi, 26-16 og leikhlutinn var í járnum, Keflavík virtist ætla taka stjórnina, voru komnar 16 stigum yfir en þetta Þórslið er ólseigt, þær minnkuðu muninn niður í 12 stig og Sverrir Þór, þjálfari Keflavíkur, tók leikhlé þegar hálf mínúta var eftir. Þannig hélst munurinn, 46-34 fyrir Keflavík í hálfleik.

Alls voru sjö leikmenn hjá Keflavík komnar á blað og vel það, sú stigalægsta með 5 stig og einungis Birna Benónýsdóttir komin í tveggja stafa stigaskor, með 10 stig.

Tilfinning blaðamanns var að Þórskonur þyrftu að eiga fljúgandi start í seinni hálfleiknum til að eiga möguleika í þessum leik. Sú varð ekki raunin, Keflavík skoraði fyrstu fjögur stigin en ólseigir Þórsarar settu næstu fimm stig. Hin stóra og stæðilega Birna Benónýsdóttir, setti þá sinn annan þrist og var klaufi að leggja boltann ekki ofan í körfuna í næstu sókn en þarna var Keflavík búið að koma sér kyrfilega fyrir í bílstjórasætinu, 55-39. Næstu fjögur stig Keflvíkinga og munurinn kominn í 20 stig og Þór tók leikhlé. Gott ef tapparnir voru ekki farnir að poppa upp úr einhverjum kampavínsflöskum í Keflavík á þessum tímapunkti. Keflavík bætti við muninn þar til leikhlutinn var allur, 69-43 og ljóst að kraftaverk þyrfti til að koma í veg fyrir tvöfaldan bikarsigur Keflvíkinga.

Sigurhátíð Keflvíkinga var byrjuð þegar fjórði leikhlutinn hófst, stuðningsfólk fékk að handleika bikar karlaliðsins og ljóst að mikið yrði fagnað í Keflavík í kvöld. Þessi leikur var búinn og óþarfi að hafa um hann fleiri orð, mjög öruggur Keflavíkursigur staðreynd, 89-67.

Daniella Wallen var kjörin kona leiksins, hún var frábær frá fyrstu mínútu, endaði þó ekki með nema 15 stig, tók 12 fráköst og gaf sex stoðsendingar. Til marks um að hún var best, Keflavík vann með 34 stigum á meðan hennar naut við. Fimm leikmenn skoruðu 10 stig eða meira og tíu leikmenn komust á blað. Sanngjarn Keflavíkursigur staðreynd.

Til hamingju Keflvíkingar með tvöfaldan bikarsigur 2024!