Public deli
Public deli

Íþróttir

Keflavík sigraði tveimur færri
Boltinn í netinu. Helgi Þór skorar seinna mark Keflvíkinga í dag. VF-mynd: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 12. júlí 2020 kl. 22:01

Keflavík sigraði tveimur færri

Það var baráttuglatt lið Keflvíkinga sem mætti Þór frá Akureyri á Nettóvellinum í dag í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Keflvíkingar mættu einbeittir til leiks og hófu leikinn af krafti. Það var svo á 10. mínútu að Adam Ægir Pálsson kom boltanum í netið, skot Adams virtist hættulítið en markmaður Þórsara gerði sig sekan um mistök sem kostaði mark. Adam Ægir var aftur á ferðinni á 29. mínútu þegar hann boltann gaf fyrir mark Þórs og Helgi Þór Jónsson var mættu til að afgreiða hann í netið, 2:0 fyrir Keflavík. Skömmu síðar fékk Frans Elvarsson að líta sitt annað gula spjald í leiknum fyrir að toga leikmann Þórs niður, Frans rekinn í sturtu og Keflvíkingar manni færri það sem eftir lifir leiks. Við þetta jókst pressa Þórsara jafnt og þétt en án árangurs og Keflavík leiddi 2:0 í hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði ekki vel fyrir Keflvíkinga sem fengu dæmda á sig vítaspyrnu á 48. sem Þórsarar skoruðu úr og minnkuðu muninn í eitt mark. Áfram hélt Þór að pressa og sókn þeirra þyngdist en Keflvíkingar þjöppuðu sér saman og vörðust vel. Keflvíkingar áttu sín færi þrátt fyrir að liggja mestmegnis í vörn og allt sem kom á rammann varði Sindri Kristinn Ólafsson, markmaður Keflvíkinga og þeirra besti maður í dag. Á 82. mínútu versnaði útlitið fyrir Keflavík þegar Kian Williams fékk reisupassann og Keflvíkingar tveimur færri síðustu mínúturnar en Þór náði ekki að nýta sér liðsmuninn og lauk leiknum 2:1 fyrir Keflavík sem lyftir sér upp í þriðja sæti Lengjudeildarinnar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hér má sjá myndir Hilmars Braga úr leik Keflavíkur og Þórs.

Grindavík sótti stig til Eyja

Grindvíkingar mættu kokhraustir til Eyja þegar þeir sóttu heim efsta lið Lengjudeildar karla, ÍBV, á Hásteinsvelli í dag. Grindvíkingar komust yfir á 23. mínútu með marki Stefáns Inga Sigurðarsonar og leiddu í hálfleik 1:0.

Á 67. mínútu náðu Eyjamenn að jafna með marki af dýrari gerðinni, þrumufleygur í samskeytin og úrslitin urðu því 1:1. Svekkjandi fyrir Grindvíkinga að missa leikinn í jafntefli en á sama tíma verður að segjast alveg eins og er að það er ekki sjálfgefið að sækja stig til Eyja.

Reynismenn á markaskónum – skoruðu fjögur í 3:1 sigri

Reynir tók á móti Hetti/Huginn á BLUE-vellinum í dag í 3. deild karla og þar kom nýjasti liðsmaður Reynis við sögu. Magnús Sverri Þorsteinsson gekk frá félagaskiptum í Reyni á lokadegi félagaskiptagluggans og hann kom þeim yfir á 10. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Fimm mínútum síðar bætti Magnús öðru marki við, nú úr aukaspyrnu. Staðan 2:0 fyrir Reyni í hálfleik. Magnús Magnússon bætti þriðja marki Reynismanna við á 76. mínútu en undir lok leiksins (87’) minnkaði Birkir Freyr Sigurðsson muninn með marki í eigið net.

Úrslitin 3:1 fyrir Reyni sem er á toppi 3. deildarinnar. Gaman að sjá Magnús Sverri Þorsteinsson aftur á takkaskónum en Magnús lék síðast með Keflavík í Inkasso-deildinni árið 2016.

Magnús Sverrir skorar fyrsta mark sitt fyrir Reyni á tímabilinu. VF-mynd: Hilmar Bragi

Hér má sjá myndir sem Hilmar Bragi tók á leiknum.

Keflavík - Þór (2:1) | Lengjudeild karla 12. júlí 2020