Íþróttir

Keflavík örugglega áfram í úrslit VÍS-bikars kvenna
Daniela Wallen var með 25 stig, nítján fráköst, tólf stoðsendingar og fimm stolna bolta í kvöld. Myndir úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 10. janúar 2023 kl. 21:53

Keflavík örugglega áfram í úrslit VÍS-bikars kvenna

Daniela Wallen var í aðalhlutverki þegar Keflavík vann yfirburðasigur á 1. deildarliði Stjörnunnar í undanúrslitum VÍS-bikars kvenna rétt í þessu. Leiknum lauk með 100:73 sigri Keflavíkur sem tók forystu strax í byrjun og leit aldrei til baka.

Það stefnir í hörkuúrslitaleik þegar tvö efstu lið Subway-deildar kvenna, Keflavík og Haukar, mætast í Laugardalshöllinni næstkomandi laugardag klukkan 13:30 en Haukar unnu Snæfell 98:62 í fyrri undanúrslitaleik dagsins.


Stjarnan - Keflavík 73:100

(18:27, 18:33, 19:25, 18:15)
Keflavík er komið áfram í bikarúrslit kvenna en þær urðu síðast bikarmeistarar árið 2018.

Þótt sigur Keflvíkinga hafi aldrei verið í hættu var leikurinn hin besta skemmtun og Stjörnuliðið sýndi að það var engin tilviljun að það hafi komist í undanúrslit. Leikur liðanna er ekki svo ólíkur, hátt tempó og mikil læti – Keflvíkingar þó með talsvert reyndari og sterkari leikmenn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eins og fyrr segir var Daniela Wallen í hörkustuði og engin Stjörnukona átti roð í hana enda var Wallen sjóðandi heit með 53 framlagspunkta. Birna Valgerður Benónýsdóttir sýndi líka að hún er ekkert lamb að leika sér við þegar hún er nærri körfunni og hún nýtti vel hæð sína og styrk þegar hún setti niður nítján stig og tók þess að auki þrjú fráköst og átti tvær stoðsendingar. Anna Ingunn Svansdóttir kom næst á eftir Birnu með sautján stig og þrjár stoðsendingar.

Birna Valgerður er illviðráðanleg undir körfunni.
Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur, mun reima á sig körfuboltaskóna á morgun og freista þess að leika tvo úrslitaleiki á laugardag en Keflavík og Stjarnan mætast í undanúrslitum karla á morgun klukkan 17:15 í Laugardalshöllinni.

Keflavík: Daniela Wallen Morillo 25/19 fráköst/12 stoðsendingar/5 stolnir, Birna Valgerður Benónýsdóttir 19, Anna Ingunn Svansdóttir 17, Anna Lára Vignisdóttir 9, Ólöf Rún Óladóttir 8/5 stolnir, Hjördís Lilja Traustadóttir 6/4 fráköst, Karina Denislavova Konstantinova 6/5 fráköst/6 stoðsendingar, Eygló Kristín Óskarsdóttir 4, Anna Þrúður Auðunsdóttir 4, Agnes María Svansdóttir 2/5 fráköst, Gígja Guðjónsdóttir 0, Katla Rún Garðarsdóttir 0.