Íþróttir

Keflavík og Njarðvík hefja nýja árið á sigrum
Birna Valgerður Benónýsdóttir skoraði átján stig gegn Haukum í sigri Keflvíkinga. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 4. janúar 2024 kl. 10:05

Keflavík og Njarðvík hefja nýja árið á sigrum

Keflavík og Njarðvík gefa ekkert eftir í toppbaráttu Subway-deildar kvenna í körfuknattleik en bæði lið unnu góða sigra í gær. Keflavík er efst í deildinni með ellefu sigra í tólf leikjum, Njarðvík er með níu sigra í tólf leikjum og er jafnt Stjörnunni að stigurm sem er með jafnmarga sigra en hefur leikið þrettán leiki.

Keflavík - Haukar 66:59

Daniela Wallen heldur sínu striki og lék vel fyrir Keflavík í gær.

Keflvíkingar lentu í smá vandræðum þegar þær tóku á móti Haukum í gær í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í gær. Keflavík hefur misst tvo sterka leikmenn úr sínum röðum en fyrirliðinn Katla Rún Garðarsdóttir er ólétt og leikur ekki meira á þessu tímabili, þá hefur Agnes Svansdóttir haldið til Bandaríkjanna í nám.

Optical Studio
Optical Studio

Haukar byrjuðu betur og náðu snemma átta stiga forskoti (4:12) en þegar fyrsta leikhluta lauk var munurinn eitt stig (16:17).

Gestirnir héldu sínu striki í öðrum leikhluta og héldu sókn Keflvíkinga í skefjum. Keflavík elti allan fjórðunginn og gestirnir höfðu sex stiga forystu í hálfleik (26:32).

Keflvíkingar mættu mun ákveðnari til seinni hálfleik og um miðjan þriðja leikhluta voru þær búnar að jafna (38:38). Þær náðu að komast yfir (42:40) en þá settu Haukar niður þrist og gestirnir höfðu eins stigs foryrstu fyrir síðasta leikhlutann.

Haukar juku forystuna í sex stig í fjórða leikhluta (44:50) en um miðjan fjórðunginn fóru Keflvíkingar í gang og settu stopp á sókn gestanna. Keflavík sneri vörn í sókn og breytti stöðunni úr 47:52 í 59:54 á þriggja mínútna kafla. Að lokum var sigurinn Keflvíkinga sem hefur aðeins tapað einum leik á tímabilinu.

Birna Valgerður Benónýsdóttir og Daniela Wallen skiluðu átján stigu hvor og Elisa Pinzan fimmtán. Þá tók Wallen fjórtán fráköst og Thelma Ágústsdótir þrettán.


Njarðvík - Þór Akureyri 84:57

Hulda María Agnarsdóttir hefur staðið sig vel með Njarðvík á tímabilinu en hún er ein fjögurra fimmtán ára leikmanna Njarðvíkur.

Njarðvíkingar sýndu Þór Akureyri enga gestrisni þegar norðankonur mættu í Ljónagryfjuna í gær í Subway-deild kvenna. Heimakonur náðu tólf stiga forystu í fyrsta leikhluta (26:14) og höfðu mikla yfirburði í leiknum.

Í hálfleik var staðan 39:31 en Njarðvíkingar héldu áfram að þjarma að gestunum í þriðja leikhluta. Bilið á milli liðanna tók að breikka aftur og þegar þriðja leikhluta lauk höfðu Njarðvíkingar náð fimmtán stiga forystu (62:47).

Þegar fjórði leikhluti fór af stað var ljóst að það væri formsatriði fyrir heimakonur að klára leikinn og því fengu ungir leikmenn Njarðvíkur að spreyta sig á vellinum og þegar leiknum lauk voru fjórir fimmtán ára leikmenn inni á vellinum.

Emilie Hesseldal og Ena Viso voru með tuttugu stig hvor fyrir Njarðvík og þær Hulda María Agnarsdóttir og Jana Falsdóttir tíu stig hvor.

Hólmfríður Eyja Jónsdóttir sýndi hvað hún kann þegar hún lék sínar fyrstu mínútur í efstu deild.

Hólmfríður Eyja Jónsdóttir lék sínar fyrstu mínútur í efstu deild kvenna í gær og setti níður sín fyrstu stig en hún og þær Hulda María Agnarsdóttir, Sara Björk Logadóttir og Kristín Björk Guðjónsdóttir eru allar fimmtán ára uppaldir Njarðvíkingar.


Grindavík sat hjá í þessari umferð en Grindvíkingar áttu að leika gegn Blikum sem hafa dregið lið sitt úr keppni.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, kíkti í Blue-höllina og Ljónagryfjuna í gær og smellti af nokkrum myndum sem má sjá neðar á síðunni.

Keflavík - Haukar (66:59) | Subway-deild kvenna 3. janúar 2024

Njarðvík - Þór Akureyri (84:57) | Subway-deild kvenna 3. janúar 2024