Íþróttir

Kannski spilum við bara í Laugardalshöllinni
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 16. nóvember 2023 kl. 09:54

Kannski spilum við bara í Laugardalshöllinni

„Það er búið að bjóða okkur okkur sex íþróttahús hið minnsta til að æfa í,“ segir Þorleifur Ólafsson, þjálfari kvennaliðs Grindavíkur í Subway deild kvenna. Lalli var búinn að koma sér fyrir í íbúð í Reykjavík þegar samtalið átti sér stað á sunnudeginum eftir að ósköpin riðu yfir Grindavík og vissi ekki mikið hvernig framhaldið yrði.

„Við ætlum að reyna æfa sem fyrst en ég tók stöðutékk á liðinu og þær voru ekki allar með körfuboltaskóna með sér en það er alltaf hægt að redda því. Okkar fyrsti leikur eftir landsleikjahléið átti að vera heimaleikur á móti Þór Akureyri, nokkuð ljóst að hann fer ekki fram á okkar heimavelli. Ég nenni varla að fara norður á þessum tímapunkti svo kannski verður leikurinn bara spilaður í Laugardalshöllinni. Körfuknattleikssambandið mun pottþétt finna eitthvað út úr þessu og við tökum bara því sem verða vill. Ég veit að allir standa með okkur Grindvíkingum í þessum raunum. Mér sýnist ástandið á mínum leikmönnum vera gott miðað við aðstæður, einn útlendingurinn minn var og er í Bandaríkjunum, Danielle býr í Grindavík og komst í öruggt skjól og sú ástralska gat farið með Bryndísi aðstoðarþjálfara í Hveragerði.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Þorleifur og Danielle Rodriguez á hliðarlínunni í leik með Grindavík í upphafi tímabilsins.

Ég mun leyfa stelpunum svolítið að stjórna ferðinni í þessu, ef einhver treystir sér ekki á æfingu er það bara þannig. Ég held að ég persónulega myndi vilja geta komist á æfingu til að dreifa huganum en við erum öll ólík. Auðvitað eru allir skelkaðir en við stöndum saman í þessu. Oft vill það gerast við svona áföll að lið þjappa sér saman. Ég held að sú verði raunin hjá mínu liði.“

Lalli var með æfingu þegar „stuðið“ byrjaði á föstudaginn. „Ég þurfti að stytta æfinguna um hálftíma, lætin voru þvílík, en ég var búinn að segja stelpunum að þetta væri alveg að verða búið, þannig hefur þetta verið. Þórkatla, konan mín, var að halda upp á afmæli og hringdi í mig og þá bara dreif ég mig heim. Foreldrarnir voru að koma að sækja börnin sín í afmælið og við tókum ákvörðun um að flýja Grindavík og fá smá skjálftafrí, ætluðum bara að koma heim daginn eftir. Við tókum eitthvað með okkur en gleymdum tösku með tölvum, ipödum og slíku, við gerðum einfaldlega ráð fyrir að geta snúið til baka eftir að þessari hrinu myndi ljúka. Þetta er staða sem maður hélt innst inni að kæmi ekki upp. Ég fór með son minn á fjölliðamót á laugardaginn og þar hittum við marga Grindvíkinga, það var gott en svo er ekkert annað hægt en taka bara æðruleysið á þetta. Við verðum bara að vonast eftir því besta,“ sagði Lalli.