Íþróttir

Hjólreiðar í Grindavík
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 10. september 2020 kl. 09:04

Hjólreiðar í Grindavík

Bjarni Már Svavarsson er einn stofnenda hjólreiðadeildar Grindavíkur, hann er formaður Ungmennafélags Grindavíkur og situr í stjórn hjólreiðadeildarinnar, hann er jafnframt formaður Hjólreiðasambandins. Víkurfréttir ræddu við Bjarna um stöðu hjólreiða í Grindavík.

„Hjólreiðadeild Grindavíkur var stofnuð árið 2016,“ segir Bjarni. „Þetta er ekki stór deild, það eru um tuttugu manns sem eru að hjóla hérna í Grindavík en færri mæta á æfingar. Fjöldinn hefur svolítið staðið í stað hérna hjá okkur, við höfum ekki getað verið með neitt unglingastarf.

– Eru þið eingöngu að keppa í götuhjólreiðum?

„Já, við erum bara að æfa götuhjólin en það eru fáeinir hjá okkur sem eru eitthvað á fjallahjólum líka.“

– Keppirðu sjálfur?

„Eiginlega ekki, ég tók eitthvað aðeins þátt í sumar en ég var að keppa á árunum 1992 til 1996. Þá var ég á fullu í þessu sjálfur. Þetta er búið að vera mitt áhugamál síðan ég var unglingur, það datt aðeins niður á tímabili en svo kom áhuginn kominn aftur þegar börnin urðu aðeins eldri. Ég hef alltaf fylgst með Tour de France og líka öllu hérna heima, mér finnst þetta æðislega skemmtileg sport.“

– Hefurðu orðið var við áhugavakningu á hjólreiðum í þessu Covid-fári?

„Jú, ég hef alveg orðið var við að fleiri eru farnir að hjóla en þeir eru meira bara að þessu sjálfir. Við höfum ekki getað haldið úti þessum föstum æfingatímum, út af tveggja metra reglunni og öðru, svo það hefur ekki orðið nein aukning í deildinni.“

– Æfið þið líka yfir veturinn?

„Já, við gerum það – en hver gerir það bara heima hjá sér. Hjólreiðadeildin hefur enga æfingaaðstöðu en það stendur vonandi til bóta. Við erum að reyna að komast inn í íþróttamiðstöðina og þau mál eru í skoðun, það er ekkert komið á hreint og þessi mál eru bara á umræðustigi ennþá en vonandi gengur það. Þessi mál eiga til að sofna svolítið yfir veturna þegar það er ekkert starf í gangi. Þríþrautadeild Njarðvíkur er líka í hjólreiðum og það hafa einhverjir frá okkur farið á æfingar þar yfir vetrartímann. Við höfum tækifæri til að æfa með þeim sem er ágætt, það er fínasta samstarf á milli félaga í hjólreiðafélögunum – þetta er svo fámennur hópur.“

– Hvert á fólk að snúa sér ef það vill byrja að æfa hjólreiðar?

„Það eru þessi tvö félög sem leggja stund á þetta á Suðurnesjum, hjólreiðadeild Grindavíkur og 3N í Njarðvík. Það er bara að setja sig í samband við þessi félög, þau taka vel á móti öllum,“ segir Bjarni.

Bjarni Már hefur haft hjólreiðar að áhugamáli frá því hann var unglingur.

Samskipamótið

– Nú var mót hjá ykkur um helgina, þar áttuð þið þrjá keppendur. Segðu mér, voru margir þátttakendur í mótinu?

„Það voru fáir núna miðað við undanfarin ár, það voru 98 skráðir en til samanburðar voru yfir 200 í fyrra. Það er þetta ástand sem er búið að vera, það hefur áhrif. Þetta mót hefði átt að vera haldið í maí en svo var allt stopp og engin hjólreiðakeppni fyrr en í júní þannig að þetta mót lenti í þeirri seinkun. Svo átti að halda það 8. ágúst en þá fór allt í baklás aftur eftir verslunarmannahelgina, á endanum var mótið haldið um síðustu helgi og þá fengum við alveg frábært veður. Við nutum aðstoðar sunddeildarinnar við umferðargæslu hérna í Grindavík, styrkjum þau með því móti, svo eru tvö önnur félög sem eru með okkur í mótinu.“

– Sonur þinn, Jóhann Dagur sem varð Íslandsmeistari í sínum flokki fyrr í sumar, hann virðist vera mjög efnilegur.

„Já, hann er það. Hann byrjaði nú ekki í hjólreiðum fyrr en eftir að deildin var stofnuð svo hann er ágætlega efnilegur. Núna er hann kominn með þjálfara sem rekur hann áfram – það þýðir ekkert fyrir mig að segja honum til. Þjálfarinn er reyndar í Reykjavík en þeir æfa saman í gegnum forrit þar sem hann fær upplýsingar um hvað hann eigi að gera.

Hann ætlaði á Evrópumótið í ár en Hjólreiðasambandið og landsliðsnefndin ákvað að senda engan á EM þetta árið út af ástandinu, þá horfðum við til þátttökur í HM en það var fært og á endanum ákveðið að vera bara með fullorðna keppendur.

Það eru því miður allt of fáir á þessum aldri í hjólreiðum hérna á Íslandi. Ég held að ef þeir ætla að ná einhverjum árangri þurfa þeir að fara út að keppa og æfa – eins og í flestum íþróttum. Bestu körfuboltamennirnir okkar fara í nám erlendis, skipta um umhverfi.“

Hjólað í blíðviðri – Samskipamótið 2020

Fjórða og síðasta bikarmót Hjólreiðasambands Íslands í götuhjólreiðum var haldið laugardaginn 5. september og hófu keppendur leik og luku keppni í Grindavík.

Flokkarnir hjóluðu mislangar vegalengdir, allt frá 46 km til 146 km. Sá flokkur sem hjólaði lengstu vegalengdina, A flokkur karla, hjólaði frá Grindavík austur Suðurstrandaveg að Þorlákshafnarvegi, þar var snúið við og sama leið hjóluð til baka en beygt upp Krýsuvíkurveg og snúið við á Vatnsskarði, þaðan aftur niður á Suðurstrandarveg og hjólað til Grindavíkur.

Þrír Grindvíkingar tóku þátt í mótinu; Jóhann Dagur Bjarnason sem keppti og sigraði í flokki Junior karla (79 km), Sigurbjörg Vignisdóttir sem keppti í B-flokki kvenna (57 km) og Heimir Daði Hilmarsson sem keppti í almenningsflokki karla (46 km).

Grindvíkingurinn Jóhann Dagur Bjarnason  keppti í Junior karla. Jóhann varð Íslandsmeistari í Junior flokki (17–18 ára) í götuhjólreiðum fyrr í sumar. Ljósmyndir: Hörður Ragnarsson.

Tímar keppenda frá Suðurnesjum í Samskipamótinu:

Jóhann Dagur Bjarnason hjólaði 79 km á 2:19:07 (1. sæti)

Sigurbjörg Vignisdóttir hjólaði 57 km á 2:05:00 (7. sæti)

Heimir Daði Hilmarsson hjólaði 46 km á 1:45:34 (5. sæti)