Íþróttir

Hjóla og synda hringinn
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 16. júlí 2020 kl. 20:15

Hjóla og synda hringinn

Svanur Már hjólar hringveginn og Birna syndir í öllum vötnum á sömu leið

Svanur Már Scheving er mikill íþróttamaður í Reykjanesbæ og er í 3N þar sem hann er að hjóla, synda og hlaupa og hefur verið í þeim félagsskap í nokkur ár. Í vor fékk Birna Hrönn, kærasta hans, þá hugmynd að fara hringinn í kringum Ísland. Hún ætlaði að synda í öllum vötnum við hringveginn og bauð Svani að koma með. Hann ákvað því að slá til og hjóla hringinn. Birna dregur því tjaldvagn eftir hringveginum sem þau nota sem gistiaðstöðu en Svanur er að hjóla ríflega 100 kílómetra á dag, jafnvel alveg 140 kílómetra.

Þegar Víkurfréttir heyrðu í Svani var hann nýkominn á Reyðarfjörð og ferðalagið var búið að ganga vel. Hann sagði að það væru fáir ferðamenn á ferli. Hann hafi aðeins hitt á fimm hjólandi ferðamenn á leið sinni frá Reykjanesbæ og til Reyðarfjarðar. Hann var þá að ljúka við að hjóla 750 km. á sex dögum en leiðin sem Svanur fer um landið er 1.500 km.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Svanur og Birna ætla að gefa sér hálfan mánuð í hringferðina. Hún syndir í öllum vötnum sem verða á vegi þeirra. Á Facebook síðum þeirra má sjá myndir og myndskeið þar sem Birna syndir m.a. í Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi og á fleiri stöðum í magnaðri íslenskri náttúru. Birna er vön sundkona og er heimsmeistari í sínum aldursflokki í íssundi og er búin að vera í mörg ár í þessu. Selir og hvalir hafa alveg látið Birnu í friði þegar hún er að synda í sjó og vötnum en í einu sundi á hringferðinni gerði svanur, þó ekki Svanur Már, Birnu lífið leitt og réðst að henni. Hún komst þó ósködduð úr þeirri viðureign.

Spurður hvernig sé að hjóla úti á vegunum í dag þá segir Svanur að það sé mikið af Íslendingum á ferðinni. Svanur hefur haft þá reglu að fara af stað kl. 06 á morgnanna og umferðin sé ekki að byrja fyrr en um kl. 10. Þau hafa hreppt alskonar veður á ferðalaginu. Suðurströndin var sólrík en á dagleiðinni að Reyðarfirði þá var mikill vindur. Svanur er að ná að hjóla á 25-30 km. hraða en stundum hægar þegar mikill mótvindur er.

- Hvernig er að upplifa náttúruna hjólandi?

„Ég á ekki orð yfir það. Að upplifa náttúruna á þennan hátt og kyrrðina á morgnana og að vera einn með sjálfum sér. Landið er bara yndislegt. Ég er að njóta hverrar einustu mínútu“.

Svanur hefur sloppið við blöðrur og allt vesen á ferðalaginu. Hann segist hafa fengið góð ráð áður en haldið var í ferðina frá reynsluboltum en m.a. hafa nokkrir Suðurnesjamenn farið svona ferðir áður. Þá segir Svanur að Birna hugsi vel um hann á ferðinni. Hann sé stoppaður reglulega til að borða og drekka. Svanur segist borða góðan morgunmat, hafragraut, skyr og döðlur. Þá fær hann núðlusúpu og lifrarpylsu þegar hann er hálfnaður hverja dagleið. „Orkurík fæða er það sem gildir,“ segir hann, enda sé brennslan mikil þegar það er hjólað.

Suðurströndin er nokkuð flöt til að hjóla en þegar komið er á austufirðina og á norðurlandið þá er meira um brekkur. Svanur sagði þær vera tilhlökkun, því þegar búið er að hjóla upp brekku, þá sé líka hægt að láta sig renna niður og þá geti maður farið hratt.

Svanur segir að fyrir svona hringferðalag þurfi að undirbúa sig vel bæði líkamlega og andlega. Það þarf að hafa orkuríka fæðu og mjög gott að hafa góðan ferðafélaga, það skipti öllu máli. Svanur gerir svo ráð fyrir að enda ferðalagið um komandi helgi en hann og Birna stoppuðu aukanótt á Akureyri um miðja vikuna, þar sem þau eiga bæði fjölskyldu.

Félagar Svans úr 3N ætla að taka formlega á móti þeim þegar þau koma aftur til Reykjanesbæjar á laugardag eða sunnudag.

Myndirnar með umfjölluninni eru af facebook-síðum þeirra Svans og Birnu og birtar með góðfúslegu leyfi.

Svanur og Birna á hringferð um landið