Íþróttir

Grindvískir tipparar með þrettán rétta
Föstudagur 17. nóvember 2023 kl. 06:09

Grindvískir tipparar með þrettán rétta

Tipparar í Grindavík láta ekki deigan síga í tippinu þrátt fyrir náttúruhamfarir og nældu sér í þrettán rétta á sunnudagsseðilinn. Var miðinn keyptur í gegnum félagakerfi UMFG. Notuðu Grindvíkingarnir Ú kerfi þar sem sjö leikir eru þrítryggðir og tveir leikir tvítryggðir og kostaði miðinn 8.788 krónur. 

Alls voru fimmtán tipparar á Íslandi með þrettán rétta á sunnudagsseðlinum og vinningurinn því ekki hár eða rúmar 80 þúsund krónur. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fjórir tipparar voru með þrettán rétta á enska getraunaseðlinum síðastliðinn laugardag og fá þeir rúmar 600.000 krónur í sinn hlut hver. Einn vinningsmiðinn var keyptur í félagakerfi Knattspyrnufélags Fjallabyggðar og var hann með sjö tvítryggða leiki og sex leiki með einu merki og kostaði 1.664 krónur.

Ekki verður leikið í ensku úrvalsdeildinni um helgina og því verður tippleikur Víkurfrétta í fríi að þessu sinni. Njarðvíkingurinn Hámundur Örn Helgason stóð við stóru orðin og sló Vogamærina Petru Ruth Rúnarsdóttur út í síðustu umferð, 11-9. Petra hefur því lokið leik og þökkum við henni fyrir þátttökuna en hún tyllti sér þó í annað sætið í heildarkeppninni, hún er með sautján rétta en Eva Rut Vilhjálmsdóttir úr Garði er í þriðja sæti með sextán rétta. Grindvíkingurinn Jónas Þórhallsson situr sem fastast á toppnum, fékk 26 rétta samtals enda hélt hann velli í þrjú skipti.