RNB afmæli
RNB afmæli

Íþróttir

Grindavík vann slaginn um Suðurströndina
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 10. nóvember 2023 kl. 10:28

Grindavík vann slaginn um Suðurströndina

Grindavík tók á móti grönnum sínum við Suðurstrandarveginn, Þorlákshafnar-Þórsurunum í gærkvöldi og unnu sigur eftir jafnar lokasekúndur, 93-90.

Eftir jafna byrjun tóku heimamenn frumkvæðið og leiddu að loknum fyrsta leikhluta, 21-15. Vörnin var geysisterk og áttu gestirnir oft í hinum mestu vandræðum með að komast að körfunni og í öðrum leikhluta jókst munurinn og virtist stefna í einstefnu. Þórsarar eru hins vegar með hörku lið og með góðan þjálfara, sem brást við með leikhléi og Þórsarar komust aftur inn í leikinn en lokasprettur hálfleiksins var heimamanna sem gengu inn í leikhléið með ellefu stiga forskot, 45-34.

Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik, heimamenn virtust ætla stinga af og eftir fjögurra mínútna leik í seinni hálfleik munaði sextán stigum, 59-43 og aftur tók Lárus þjálfari Þórs leikhlé. Hárþurrkuræðan virkaði greinilega því Þór vann það sem eftir lifði þriðja fjórðungs, 21-9 og hefði ekki verið fyrir flautuþrist Óla Ól, hefði Grindavík bara skorað sex stig en munurinn fjögur stig fyrir lokafjórðunginn, 68-64.

Þórsarar héldu áfram á sömu braut og voru komnir yfir, 74-77 en þá vöknuðu heimamenn loksins og áttu 8-0 kafla og breyttu stöðunni í 82-77. Liðin héldust hönd í hönd má segja út leikinn sem bauð upp á dramatík í lokin. Þegar 1:33 var eftir minnkaði Þór muninn í eitt stig, 89-88 og Grindavík tók leikhlé. Þórsarar sendu Dedric Basile á línuna þegar fjórtán sekúndur lifðu leiks og Grindavík yfir 92-90. Basile klikkaði á báðum vítum og Þórsarar náðu frákastinu en engu munaði að Deandre Kane næði að stela boltanum en missti hann út af. Þór tók leikhlé, hefði getað jafnað leikinn eða komist yfir en Basile náði að stela boltanum, brotið á honum og nú setti hann eitt víti niður og Þór komst ekki lengra og sanngjarn Grindavíkursigur því staðreynd, 93-90.

Basile og „King“ Kane eins og Stinningskaldi sem er stuðningsmannahópur Grindvíkinga, kallar Deandre Kane, voru stigahæstir Grindvíkinga með 22 stig hvor. Basile setti flest sín stig í fyrri hálfleik og Kane sá um seinni hálfleikinn. Daninn Mortensen er alltaf að komast betur og betur inn í leik Grindavíkurliðsins og setti 14 stig í gær. Óli tók flest fráköst Grindvíkinga eða 9 talsins og Basile gaf flestar stoðsendingar, einnig 9. Grindvíkingar eru með mjög öflugt lið og er líka gaman að sjá ungu peyjana vaxa og dafna með hverjum leiknum, sérstaka athygli vekur Arnór Tristan Helgason (sonur Helga Jónasar Guðfinnssonar) en krafturinn í drengnum er magnaður, mikill háloftafugl og gladdi áhorfendur í gær með tveimur glæsilegum troðslum.

Hugsanlega var samt sjötti maðurinn í stúkunni, Stinningskaldi besti leikmaður Grindavíkurliðsins í gær. Þessir strákar (vonandi bætast stelpur inn í hópinn) sem vöktu verðskuldaða athygli í sumar á leikjum Grindavíkurliðsins í knattspyrnu, voru syngjandi og trallandi allan leikinn í gær og settu svo sannarlega góðan svip á leikinn.

Það skyldi engum koma á óvart ef Grindavíkurliðið blandar sér í baráttu um alla titla í vetur.

Það var hinn frábæri ljósmyndari, Ingibergur Þór Jónasson sem tók myndir á leiknum.