Karlakór Kef vortónl
Karlakór Kef vortónl

Íþróttir

Grindavík vann Aþenu í botnslag Bónusdeildar kvenna
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 15. febrúar 2025 kl. 17:10

Grindavík vann Aþenu í botnslag Bónusdeildar kvenna

Grindavík mætti liði Aþenu í sannkölluðum botnslag í Bónusdeild kvenna í dag en fyrir leikinn var Aþena neðst í deildinni með þrjá sigra og þrettán töp, Grindavík með einum sigurleik meira. Eftir jafnar byrjunarmínútur leiddi Grindavík með 8 stigum í hálfleik og vann að lokum nokkuð öruggan sigur, 105-90.

Aþena byrjaði leikinn betur og eftir fimm mínútur höfðu þær skorað 12 stig gegn 6 stigum Grindavíkur. Grindavík óx ásmegin eftir því sem leið á byrjunarleikhlutann, vörnin með hina stóru og stæðilegu Ísabellu Ósk Sigurðardóttir, hertist og auðveldar körfur fylgdu í kjölfarið. Ísabella var komin með tvö varin skot eftir fyrsta leikhlutann. Aþena lokaði leikhlutanum með flautuþristi og var því með forystuna, 23-24. Daisha Bradford var komin með átta stig fyrir Grindavík. Dóttir Þorleifs þjálfara, Þórey Tea, sýndi að þar fer mjög efnilegur leikmaður en hún var komin með fjögur stig. 

Sama jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta en Grindavík þó aðeins á undan. Grindavík labbaði í hálfleikinn með átta stiga forystu, 47-39 og var það mesti munurinn sem hafði verið á liðunum. Daisha áfram stigahæst, komin með 12 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar. Ísabella var á góðri leið að tveggja stafa blokktölu, var komin með fjögur slík og auk þess 5 stig. Hin danska Sofie Tryggedson var komin með 8 stig, 3 fráköst og 4 stoðsendingar en hún byrjaði á bekknum.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Grindavík hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik, voru grimmari í sínum aðgerðum og fljótlega var munurinn kominn upp fyrir tíu stig, mestur fór hann upp í 19 stig en eftir þrjá leikhluta leiddi Grindavík, 77-62. Daisha og Ísabella áfram framlagshæstar, sú fyrrnefnda með 28 punkta og Ísabella með 25, komin í flotta tvennu, 13 stig og 12 fráköst en líka komin með 5 varin skot og tvo stolna, frábær leikur hjá landsliðskonunni.

Það var ljóst að gott áhlaup þyrfti frá Aþenu til að leikurinn ætti að nálgast spennustig en það kom aldrei og því landaði Grindavík öruggum sigri, 105-90.

Daisha Bradford og Ísabella Ósk Sigurðardóttir báru af í liði Grindavíkur, báðar með tröllaframlagstölur. Daisha með 39 punkta með 29 stigum, 14 fráköstum, 6 stoðsendingum og 4 stolnum boltum. Ísabella ekki langt frá þrennunni, 21 stig, 16 fráköst og 6 varin skot.

Grindavík komst upp í 8. sæti deildarinnar og er í harðri baráttu um að enda á meðal átta efstu liðanna. Með þriggja stiga sigri eða meira, fara þær upp fyrir Stjörnuna í sjöunda sæti en liðin mætast einmitt í lokaumferðinni. Ef Hamar/Þór Þ vinnur sinn leik í kvöld á móti Tindastóli, gætu þær komist upp fyriri Grindavík í lokaumferðinni, þ.a.e.s. ef Grindavík tapar gegn Stjörnunni.

Þorleifur, þjálfari Grindavíkur: Ísabella Ósk, leikmaður Grindavíkur: Brynjar Karl, þjálfari Aþenu: