Flugger
Flugger

Íþróttir

Grindavík úr leik í bikarnum eftir tap gegn Víkingi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 16. maí 2024 kl. 23:53

Grindavík úr leik í bikarnum eftir tap gegn Víkingi

Grindvíkingar mættu bikarmeisturum síðustu ára og núverandi Íslandsmeisturum, Víkingum í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins, á „heimavelli“ sínum í Safamýri í kvöld. Lokatölurnar, 1-4 gáfu alls ekki rétta mynd af leiknum.

Víkingar voru betri aðilinn í fyrri hálfleik og komust sanngjarnt yfir á 30. mínútu. Þannig var staðan í hálfleik og þeir tvöfölduðu forystu sína á 53. mínútu og þá héldu flestir að eftirleikurinn yrði auðveldur en Grindvíkingar voru ekki á því. Þeir minnkuðu muninn á 65. mínútu með víti Josip Kraznaric og eftir það voru þeir nær því að jafna en Víkingar að auka muninn. Markmaður Víkinga varði nokkrum sinnum mjög vel en þeir náðu svo að bæta við þriðja markinu á 88. mínútu og því fjórða stuttu síðar. Þungu fargi var af Víkingum létt í leikslok og greinilegt að þeir prísuðu sig sæla að hafa unnið.

Orri Freyr Hjaltalín er aðstoðarþjálfari Grindavíkur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Það er rétt, þessi úrslit gefa alls ekki rétta mynd af þessum leik. Við vorum mjög ánægðir með frammistöðuna og getum byggt á henni til framtíðar. Byrjunin okkar er auðvitað undir væntingum en það er oft mjög stutt á milli í þessu, við erum búnir að fá tvö mjög hæpin víti dæmd á okkur og búið að taka mörk af okkur, þeir dómar orkuðu tvímælis. Það þýðir bara ekkert að vera væla yfir því, þetta er langt mót og við erum bara rétt nún að ná að púsla okkar besta liði saman. Það hafa verið smávægilega meiðsli en allir leikmenn eru að verða klárir og verða vonandi allir til reiðu í næsta leik sem er á móti Gróttu á útivelli á mánudaginn. Við erum bjartsýnir á sumarið, þetta er bara nýbyrjað og nóg eftir,“ sagði norðanstálið, Orri Freyr Hjaltalín.