Nýsprautun flutt
Nýsprautun flutt

Íþróttir

Grindavík hafði betur gegn Njarðvík
Óskar Örn Hauksson nálægt því að skora en í þetta sinn sá Blakala við honum. VF/Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 22. maí 2023 kl. 23:38

Grindavík hafði betur gegn Njarðvík

Grindvíkingar unnu Suðurnesjaslaginn við Njarðvík í Lengjudeild karla sem fór fram á Stakkavíkurvelli í kvöld. Aðeins eitt mark var skorað í leiknum og það gerði Marko Vardic á 51. mínútu.

Grindavík er með sjö stig eftir þrjár umferðir og deilir toppsætinu með Aftureldingu og Fjölni. Njarðvík hefur hins vegar ekki enn unnið leik en gert tvö jafntefli og situr í tíunda sæti með tvö stig.

Leikurinn fór fram við erfiðar aðstæður, rigningarsudda og var völlurinn þungur. Heimamenn höfðu betri tök á leiknum og má segja að sigur þeirra hafi verið sanngjarn þótt vörn gestanna hafi verið nokkuð þétt.

Markið sem skildi liðin að var glæsilegt en Marko afgreiddi þá knöttinn með góðu skoti í markið án þess að Robert Blakala ætti nokkurn séns í það. Grindvíkingar voru nær því að bæta við en Njarðvík að jafna og allt útlit fyrir að þeir gulu ætli að blanda sér í baráttuna um sæti í efstu deild að ári.

Stemmningin á leikjum Grindavíkur hefur verið svo góð að eftir því hefur verið tekið á þessu tímabili, það er nokkuð ljóst að bæjarbúar hafa trú á sínum mönnum og flykkjast að baki þeirra.

Það er líf og fjör á leikjum Grindavíkur.

Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, var staddur á Stakkavíkurvelli og myndir sem eru í myndasafni neðst á síðunni. 

Grindavík - Njarðvík (1:0) | Lengjudeild karla 22. maí 2023