Íþróttir

Golfklúbbur Grindavíkur lokar Húsatóftavelli fyrir öðrum en félagsmönnum
Húsatóftavöllur. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 9. október 2020 kl. 13:52

Golfklúbbur Grindavíkur lokar Húsatóftavelli fyrir öðrum en félagsmönnum

Stjórn Golfklúbbs Grindavíkur hefur ákveðið að heimila engum nema félagsmönnum að leika Húsatóftavöll. Þetta er gert til að stemma stigu við veirufaraldrinum sem er í örum vexti, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu.

Eftirfarandi skilaboð frá stjórninni voru birt á Facebook-síðu golfklúbbsins:

Lokun Húsatóftarvallar
Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu og tilmæla frá almannavörnum hefur sú ákvörðun verið tekin um að loka Húsatóftavelli fyrir öðrum en félagsmönnum Golfklúbbs Grindavíkur frá hádegi 9. október 2020.
Þeir kylfingar sem eiga bókaða rástíma í dag, föstudag, geta nýtt sér þá rástíma en lokað hefur verið fyrir bókanir. Einnig hafa allir þeir kylfingar sem áttu rástíma um helgina fengið skilaboð um að þeirra rástímar falli niður.
Við viljum biðla til okkar félagsmanna að bóka sig ekki á rástíma á golfvöllum í kringum höfuðborgarsvæðið og mun GSÍ óska eftir því við golfklúbba að heimila ekki bókanir kylfinga á vellina.
Það eru skýr skilaboð frá almannavörnum um lokun valla á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni.
Vallarstarfsmennirnir okkar eru þegar farnir að huga að lokun og vinna í því að færa völlinn í vetrarbúninginn.
Förum varlega og vinnum saman í að kveða þessa veiru niður.
Með kveðju,
Stjórn GG
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024