Góður sigur hjá Grindavík
Grindavík fagnaði góðum sigri á FHL síðasta laugardag í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu. Grindvíkingar fara vel af stað í mótinu og hafa fjögur stig að loknum tveimur umferðum.
Eftir markalausan fyrri hálfleik var það Viktoría Sól Sævarsdóttir sem skoraði sigurmarkið (69') en hún hafði komið inn á í stað Jasmine Aiyana Colbert stuttu áður.
Grindavík mætir Fylki á útivelli í næstu umferð, næstkomandi miðvikudag.
Þróttur - KFA 1:1
Þróttarar náðu í sitt fyrsta stig í 2. deild karla í knattspyrnu á laugardag þegar liðið gerði jafntefli við KFA. Það var Kári Sigfússon sem náði forystunni fyrir Þrótt á 30. mínútu en gestirnir jöfnuðu hálftíma síðar (60') og þar við sat.
Þróttur mætir Sindra á Hornafirði í næstu umferð sem verður leikin á laugardaginn.

Víðir - Kormákur/Hvöt 3:0
Víðismenn eru með fullt hús stiga í 3. deild karla en þeir unnu sannfærandi sigur á Kormáki/Hvöt á laugardaginn.
Helgi Þór Jónsson kom Víði yfir (30') og Tómas Leó Ásgeirsson tvöfaldaði forystuna með marki úr víti í seinni hálfleik (63'). Ari Steinn Guðmundsson innsiglaði svo sigurinn með þriðja markinu á 70. mínútu.
Næsti leikur Víðís er gegn Kára á Akranesi næstkomandi laugardag.

Augnablik - Reynir 2:1
Reynismenn náðu ekki að fylgja eftir sigri í fyrstu umferð þegar þeir mættu Augnabliki á föstudag í 3. deildinni. Reynismenn léku manni færri frá 30. mínútu þegar Strahinja Pajic var vikið af velli með rautt spjald, það kom ekki í veg fyrir að Reynismenn næðu forystu en Kristófer Páll Viðarsson skoraði á 43. mínútu.
Augnablik jafnaði leikinn á 84. mínútu og skoruðu sigurmarkið í uppbótartíma (90'+3).
Rynismenn taka á móti ÍH næskomandi föstudag.
