Píratar
Píratar

Íþróttir

Góður gangur á afmælisári
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 28. ágúst 2021 kl. 07:36

Góður gangur á afmælisári

Golfklúbbur Vatnsleysustrandar fagnaði þrjátíu ára afmæli í ár

Golfklúbbur Vatnsleysustrandar fagnaði þrjátíu ára afmæli í ár en klúbburinn var stofnaður þann 14. maí 1991. Kálfatjarnarvöllur er fallegur níu holu golfvöllur á Vatnsleysuströnd sem hefur fagnað auknum vinsældum síðustu ár í kjölfar mikillar fjölgunar kylfinga. Víkurfréttir heyrðu í Hilmari Agli Sveinbjörnssyni, formanni GVS, og spurðu hann út í stöðu klúbbsins á þessum tímamótum.

Hilmar Egill Sveinbjörnsson, formaður GVS.

„Það gengur bara ljómandi vel. Við ákváðum snemma í vor að tengja afmælið við meistaramótið hjá okkur, keyptum fatnað og annað sem við merktum með afmælismerki klúbbsins og svo héldum við afmælishóf samhliða lokahófi meistaramótsins. Þar var matur og smá fjör.“

Viðreisn
Viðreisn

Var vel mætt í meistaramótið?

„Já, það var ágætis þátttaka en það er alltaf svipaður fjöldi sem tekur þátt í meistaramótinu hjá okkur, sama hvað fjölgar í klúbbnum þá er það alltaf sama fólkið sem er með í mótinu. Svo komu einhverjir aukagestir í hófið, sem höfðu ekki verið í mótinu.“

Sprenging í félagafjölda

„Félagafjöldinn hefur heldur betur verið á uppleið hjá okkur,“ segir Hilmar. „Ég er ekki með nákvæma tölu núna en það er búið að vera að fjölga jafnt og þétt í allt sumar. Í fyrra vorum við á milli 170 og 180, núna held ég að við séum komin í 250 jafnvel. Þetta er langmesta aukning í langan tíma og það var einhver aukning í fyrra líka.

Það sem gerðist í fyrravor í Covid-faraldrinum að það var lokað á allar golfferðir utanlands. Á sama tíma var afbragðsgott veður hér og golfvöllurinn okkar var opnaður talsvert fyrr en vellirnir í bænum og þá hrúgast kylfingar af höfuðborgarsvæðinu á vellina í nágrenninu. Við vorum með troðfullan völl hjá okkur dag eftir dag í einhverjar tvær, þrjár vikur. Covid var þannig séð ákveðin lyftistöng fyrir golfíþróttina í fyrra og það var áfram samskonar sveifla í ár.

Svo höfum við verið að fá svolítið af nýliðum og verðum að bregðast við því, koma þeim á réttan stað. Okkur vantar golfkennara en við erum með leiðbeinanda sem hjálpar okkur og er okkur innan handar – en okkur vantar þennan eiginlega golfkennara. Annað sem okkur vantar er almennilega æfingaaðstöðu, það er eitthvað sem við þurfum að ráðast í.“

Góð samvinna með Sveitarfélaginu Vogum

„Sveitarfélagið er algerlega með okkur í liði og hefur styrkt okkur í gegnum tíðina. Það sem við höfum verið að kynna fyrir sveitarfélaginu er að við erum hitt stóra íþróttafélagið í bænum og það þurfi að gera þeim jafn hátt undir höfði – við þurfum hreinlega að auglýsa Voga sem íþróttabæ og fara að vinna þetta þannig. Ef við skoðum kynningarbæklinga eða annað frá Skaganum sjást bara grænar grundir og gular treyjur, fólk að sparka bolta eða slá kúlu.“

Það er mikill hugur í kylfingum hjá Golfklúbbi Vatnsleysustrandar og allt starf klúbbsins á uppleið. Meðal árvissra viðburða hjá klúbbnum er haldið fyrirtækjamót og segir Hilmar það hafa verið í gangi síðustu fimm árin.

„Við verðum með firmakeppnina um næstu helgi og það er eiginlega búið að fylla mótið. Mótið hefur verið vel sótt og verið ágætis innkoma fyrir okkur. Við notum ágóðann til vélakaupa,“ segir Hilmar að lokum.

Kálfatjarnarvöllur er níu holu völlur á Vatnsleysuströnd og þykir í meðallagi erfiður en léttur á fótinn. Völlurinn hentar bæði byrjendum og lengra komnum og er vel þess virði fyrir kylfinga að kynna sér þennan skemmtilega völl.