Flugger
Flugger

Íþróttir

Fyrstu mörkin sem Grindavík fær á sig í Lengjudeildinni
Það var oft tekist hart á í leiknum í gær. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 2. júní 2023 kl. 10:40

Fyrstu mörkin sem Grindavík fær á sig í Lengjudeildinni

Grindvíkingar höfðu ekki fengið á sig mark í Lengjudeild karla í knattspyrnu þegar þeir hófu leik gegn Aftureldingu í gær en liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn. Það átti eftir að breytast þegar Afturelding fékk dæmda vítaspyrnu eftir stundarfjórðung og skoruðu úr henni (15').

Kristófer Konráðsson fer hér aftan í leikmann Afturelding og vítaspyrna dæmd. Myndir/Petra Rós

Skömmu síðar var brotið á Guðjóni Pétri Lýðssyni út við hliðarlínu en þessi reyndi leikmaður lét skapið hlaupa með sig í gönur og rak hnéð í andstæðinginn eftir brotið. Fyrir það fékk hann að líta rauða spjaldið (25') og Grindvíkingar marki undir og manni færri.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Aftureldingarmenn nýttu sér liðsmuninn og léku boltanum afar vel sín á milli, eina sem Grindvíkingar gátu gert var að bakka og elta boltann. Gestirnir uppskáru mark rétt fyrir hálfleik eftir gott samspil í gegnum vörn heimamanna og einfalda afgreiðslu framhjá Aron Degi sem kom engum vörnum við (44').

Grindvíkingar voru öllu hressari í seinni hálfleik og sköpuðu sér ágætis færi sem  hefðu skilað marki flesta aðra daga en gærdagurinn átti ekki að vera þeirra. Það var auðvitað erfitt fyrir Grindavík að vera manni færri og Afturelding lék skynsamlega, reyndi að halda boltanum og fara sér engu óðslega. Þeir gerðu endanlega út um leikinn með þriðja markinu skömmu fyrir leikslok (84') og fyrsta tap Grindvíkinga á tímabilinu því orðið að veruleika.

Dagur Ingi Hammer Gunnarsson í sannkölluðu dauðafæri en skotið var máttlaust og lítil áskorun fyrir markvörð Aftureldingar.
Óskar Ingi með frábæran skalla en Yevgen Galchuk í marki Aftureldingar bjargaði á línu.

Grindavík er nú í þriðja sæti með tíu stig en Afturelding og Fjölnir hafa bæði þrettán stig í efstu sætunum. Grindvíkingar halda í Breiðholtið í næstu umferði þar sem þeir sækja Leiknismenn heim.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, kíkti á leikinn og tók meðfylgjandi myndir.

Grindavík - Afturelding (0:3) | Lengjudeild kvenna 2. júní 2023