Flugger
Flugger

Íþróttir

Fyrsti deildarsigur Keflvíkinga í sumar
Sami Kamel fagnar seinna marki sínu í kvöld. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 21. maí 2024 kl. 23:20

Fyrsti deildarsigur Keflvíkinga í sumar

Keflvíkingar unnu fyrsta deildarsigur sinn í Lengjudeild karla í knattspyrnu á þessu tímabili með sigri á Aftureldingu á HS Orku-vellinum í kvöld. Liðin eiga það sameiginlegt að hafa farið illa af stað þetta sumarið en báðum var spáð titilbaráttu í ár.
Það var létt yfir stuðningsmönnum Keflavíkur í stúkunni í kvöld.

Keflavík - Afturelding 3:0

Keflvíkingar mættu sprækir til leiks og virtust til alls líklegir frá upphafi. Pressan var öll á vörn Aftureldingar og álitleg færi Keflvíkinga litu dagsins ljós. Eftir rúmlega tuttugu mínútna leik var Ari Steinn Guðmundsson nálægt því að skora en skota hans small í tréverkinu og gestirnir sluppu með skrekkinn.

Eftir hálftíma leik dró til tíðinda þegar Sami Kamel pressaði markvörð Aftureldingar inni í markteig og vann boltann af honum. Arnar Daði Jóhannesson, markvörður Aftureldingar, greip til þess ráðs að fella Kamel og fékk fyrir vikið beint rautt spjald og Keflavík vítaspyrnu. Sami Kamel tók vítið og sendi boltann af öryggi í netið framhjá varamarkverðinum Birki Haraldssyni (30’).

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Kamel felldur, vítaspyrna dæmd og markvörður Aftureldingar sendur í sturtu.

Keflvíkingar drógu aðeins úr sóknarþunganum eftir markið en rétt fyrir hálfleik átti Stefán Jón Friðriksson gott skot eftir fyrirgjöf frá Frans Elvarssyni en markvörður gestanna gerði vel að verja.

Staðan því 1:0 í hálfleik en Afturelding hóf seinni hálfleik af krafti og freistuðu þess að ná að jafna leikinn. Þeir voru nálægt því eftir um fimm mínútna leik þegar gott langskot small í þverslá Keflvíkinga og yfir en Ásgeir Orri Magnússon, markvörður Keflvíkinga, var með allt sitt á tæru og var búinn að loka fyrir markið.

Á 53. mínútu kom Valur Þór Hákonarson inn á fyrir Mamadou Diaw sem fékk gult spjald í fyrri hálfleik. Valur hressti verulega upp á sóknarleik Keflvíkinga sem komust betur inn í leikinn og eftir sendingu frá Degi Inga Valssyni skoraði Sami Kamel öðru sinni (66’). Mikilvægt mark og pressan farin af Keflvíkingum.

Sóknarmennirnir Sami Kamel og Valur Þór Hákonarson virðast ekki trúa því að þeir hafi báðir misst af sendingu sem var við tærnar á þeim.

Valur Þór gulltryggði sigurinn með góðu skallamarki eftir frábæra sendingu Ara Steins Guðmundssonar sem var með boltann inni í teig gestanna og vippaði boltanum yfir varnarmenn og inn á markteiginn, þar tímasetti Valur hlaupið fullkomlega og skallaði yfir markvörð Aftureldingar sem kom engum vörnum við (80’).

Mörk Keflvíkinga hefðu hæglega getað orðið fleiri en engu að síður er þungu fargi af þeim létt með fyrsta deildarsigrinum í ár.

Ari Steinn átti góðar rispur í leiknum.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók meðfylgjandi myndir á leiknum og fleiri eru í myndasafni neðst á síðunni.

Keflavík - Afturelding 3:0

Keflavík - Afturelding (3:0) | Lengjudeild karla 22. maí 2024