Íþróttir

Fyrsta deildarkeppnin sem haldin er í Reykjanesbæ
Frá fyrstu deildarhelgi í borðtennis sem haldin er í Reykjanesbæ. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 4. nóvember 2021 kl. 17:10

Fyrsta deildarkeppnin sem haldin er í Reykjanesbæ

Borðtennisfélag Reykjanesbæjar hélt deildarhelgi um síðustu helgi en um deildarhelgi er heil umferð leikin í deildarkeppni Borðtennissambands Íslands. Leikið var í glæsilegri aðstöðu félagsins þar sem slökkviliðið var áður til húsa (Hringbraut 125).

Þetta var fyrsta mótið sem félagið heldur á vegum Borðtennissambandsins og þótti það heppnast vel. „Við erum ljómandi ánægðir með hvernig til tókst,“ sagði Jón Gunnarsson eftir mótið en hann er einn af stofnendum félagsins og situr jafnframt í fyrstu stjórn þess. „Þetta er í fyrsta sinn sem svona mót er haldið hér í Reykjanesbæ, hvort sem við tölum um Keflavík eða Njarðvík eins og í gamla daga.“

Leikið var laugardag og sunnudag, 1. og 2. deild léku á laugardeginum en 3. deild á sunnudag.

Vogar aðalskipulag
Vogar aðalskipulag
Piotr Herman, formaður BR, í leik gegn keppanda úr Borðtennisfélagi Hafnarfjarðar.

Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fær fljúgandi start

Borðtennisfélag Reykjanesbæjar (BR) tekur þátt í deildarkeppninni í fyrsta sinn í ár enda var félagið formlega stofnað fyrr á árinu. BR leikur í þriðju deild og teflir fram tveimur liðum en Jón segir að félagið hafi farið vel af stað í deildinni og skipa þau nú tvö efstu sætin, eini leikurinn sem hefur tapast var innbyrðis viðureign liðanna.

Nánar er rætt við Jón Gunnarsson í vefsjónvarpi Víkurfrétta og sýnt frá mótinu en viðtalið má heyra og sjá með því að smella á myndskeiðið hér að neðan. 

Borðtennisfélag Reykjanesbæjar | Deildarhelgi 30.-31. október 2021