Íþróttir

Forsetabikarinn fór á loft í Keflavík
Keflavík er fyrsta liðið til að vinna Forsetabikarinn. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 29. október 2022 kl. 17:27

Forsetabikarinn fór á loft í Keflavík

Lokaumferð Bestu deildar karla í knattspyrnu fór fram í dag. Keflavík tók á móti Fram á HS Orkuvellinum en þessi tvö lið skipuðu efstu sæti neðri hlutans. Leikurinn var býsna fjörlegur og fór fram við kjöraðstæður, lofthiti sæmilegur, nánast logn og völllurinn í fínasta standi miðað við að komið sé fram í lok október. Heimamenn voru nánast búnir að tryggja sér efsta sætið í neðri hlutanum enda með talsvert betra markahlutfall en Fram sem gat jafnað Keflavík að stigum með sigri. Það voru hins vegar Keflvíkingar sem voru talsvert beittari í leiknum og uppskáru 4:0 sigur, frábær endir á góðu tímabili.

Mesta spennan í kringum þennan lokaleik Íslandsmótsins snerist um framherja gestanna, Guðmund Magnússon, sem þurfti eitt mark til að landa gullskónum og verða markahæstur í deildinni en markvörður Keflavíkur í dag, Rúnar Gissurarson, var kokhraustur fyrir leik og sagði við Víkurfréttir „... að enginn fjandans gullskór væri að fara á loft í Keflavík í dag!“ Rúnar stóð við stóru orðin, átti ágætis leik og hélt hreinu.

Keflavík var allan tímann betri aðilinn en gestirnir vörðust ágætlega í byrjun og það var ljóst að Guðmundur Magnússon ætlaði sér að sækja gullskóinn. Hann komst nærri því í tvígang í fyrri hálfleik, í fyrra skiptið þegar hann stakk sér eftir stungusendingu en Rúnar Gissurarson átti stórgott úthlaup og komst inn í sendinguna. Guðmundur var svo aftur á ferðinni skömmu síðar þegar hann átti stórkostlegt skot í þverslánna og niður en inn fyrir línuna vildi boltinn ekki og Keflavík slapp með skrekkinn og refsaði gestunum í kjölfarið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Rúnar nær taki á boltanum á undan Guðmundi Magnússyni.

Adam Ægir Pálsson komst þá upp að endamörkum innan teigs og sendi boltann fyrir markið þar sem Dagur Ingi Valsson tók boltann viðstöðulaust og sendi í fjærhornið (35'). Patrik Johannesen hefði getað tvöfaldað forystuna rétt fyrir lok fyrr hálfleiks þegar hann átti fínasta skot sem markvörður Fram gerði vel að verja, Johannesen náði boltanum en skot hans var kæruleysislegt og markvörðurinn varði aftur vel. Klaufalegt hjá Patrik en enn og aftur átti Adam Ægir með fyrirgjöfina.

Keflavík leiddi með einu marki í hálfleik og Johannesen bætti fyrir þetta klúður sitt í upphafi seinni hálfleiks þegar vörn Fram gerir slæm mistök og boltinn endar hjá Patrik sem lét ekki bjóða sér það tvisvar og skoraði gott mark í þetta sinn (47').

Dagur Ingi Valsson fagnar marki sínu.

Keflavík gekk endanlega frá leiknum þegar Rúnar Þór Sigurgeirsson tók góða aukaspyrnu frá hægri kanti og boltinn beint á kollinn á Dani Hatakka sem fleytti honum áfram í fjærhornið (62'). Patrik Johannesen skoraði annað mark sitt og fjórða mark Keflvíkinga, aftur eftir stoðsendingu frá Adam Ægi Pálssyni og var þetta fjórtánda stoðsending hans á tímabilinu sem tryggir honum gullboltann fyrir flestar stoðsendingar í deildinni.

Keflavík er því fyrsta liðið til að hampa Forsetabikarnum, sem er veittur sigurvegurum neðri riðils Bestu deildar karla. Það var fyrrum þjálfari Keflvíkinga og lifandi goðsögn í keflvískri knattspyrnusögu, Kjartan Másson, sem afhenti verðlaunin að leik loknum.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og við verðlaunaafhendinguna. Myndirnar má sjá í meðfylgjandi myndasafni sem er neðst á síðunni.

Hilmar Bragi Bárðarson tók meðfylgjandi myndskeið frá verðlaunaafhengingunni en það er í spilaranum hér að neðan.

Keflavík - Fram (4:0) | Besta deild karla 29. október 2022