Íþróttir

Fer sennilega að kalla þetta gott
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 16. september 2022 kl. 11:20

Fer sennilega að kalla þetta gott

– segir Magnús Þórir Matthíasson sem er farinn að leggja drög að endurkomu sinni á golfvöllinn

Magnús Þórir Matthíasson gekk til liðs við Njarðvík fyrir þetta tímabil frá nágrannaliðinu Reyni í Sandgerði en Magnús hefur komið víða við á löngum ferli. Víkurfréttir heyrðu í Magnúsi eftir að liðið hafði tryggt sér sigur í 2. deild karla og við byrjum á að óska honum til hamingju með deildarmeistaratitilinn en Magnús Þórir reimaði heldur betur á sig skotskóna þegar Njarðvík tók á móti Hetti/Huginn í næstsíðustu umferð 2. deildar karla. Leiknum lauk með sannfærandi 3:0 sigri Njarðvíkinga og skoraði Magnús öll mörkin.

Til hamingju með sigurinn í deildinni. Þetta er búið að vera mjög gott tímabil hjá ykkur.

„Já, takk fyrir það. Tímabilið hefur vissulega gengið vel en það var líka byrjað snemma í vetur að leggja grunninn að þessu öllu saman,“ segir Magnús. „Ég held að það hafi skipt miklu hvað hópurinn hafi komið snemma saman, þá þekktu allir alla og liðið var tilbúið þegar mótið byrjaði.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það hefur verið róið öllum árum að þessu markmiði frá degi eitt, eða hvað?

„Já, ég held að það sé óhætt að segja það. Ég var náttúrlega ekki með Njarðvík í fyrra en maður fann það þegar maður kom hingað hvað menn voru súrir með niðurstöðu síðasta tímabils og vildu gefa meira í. Þeir sóttu nokkra pósta og losuðu sig við aðra, þetta small í þetta skiptið,“ segir Magnús en hann er einn af þeim póstum sem small heldur betur inn í liðið í ár.

Hversu langan samning gerðir þú við Njarðvík?

„Ég skrifaði undir til tveggja ára en hann uppsegjanlegur af beggja hálfu núna þegar þessu tímabili lýkur.“

Þannig að má þá ekki reikna með þér þarna áfram?

„Ég er ekki viss um það, ég held að ég fari bara að kalla þetta gott. Tímabilið var gott og heilt yfir hef átt góð tímabil í gegnum tíðina svo ég er að pæla í að segja þetta gott núna.

Heilsan hefur verið góð og ég held að fyrir utan tveggja leika bann þá hafi ég leikið alla leikina fyrir utan að ég hvíldi gegn KF og þegar við vorum komnir í þrjú núll þá spurði Bjarni hvort ég vildi fara inn á eða hvíla og leyfa einhverjum af ungu strákunum að spreyta sig.“

Þú áttir nú stórleik síðast, skoraðir þrennu.

„Þetta var nú kannski ekki fallegasta þrennan,“ segir hann hlægjandi. „Víti, beint úr hornspyrnu og skalli yfir línuna – en þetta var þrenna engu að síður. Ég var samt gríðarlega ánægður með þetta, mörkin duttu fyrir mig í þessum leik. Ég hef verið að klára vítin sem ég tek með Njarðvík og svo datt þetta bara með okkur þarna. Við vorum í hörku-gír í fyrri hálfleik. Lokahóf yngri flokkanna fór fram fyrir leik og við vissum að leikurinn yrði vel sóttur af krökkum og foreldrum þeirra, svo voru aðstæður þokkalega góðar. Það rigndi ekki mikið, var lítill vindur og fínasta mæting – bara fínasta fótboltaveður.“

Magnús segir að sér hafi fundist það mikill léttir að tryggja sigurinn í deildinni, hann hafi líka fundið það á öðrum í kringum sig.

„Það var gott að ná að klára þetta. Við erum búnir að leiða deildina í allt sumar og það hefði verið svolítið súrt að fara upp en enda í öðru sæti, búnir að vera í efsta sætinu nánast frá byrjun.“

Svo misstiguð þið ykkur þarna í seinni hlutanum á móti Reyni og Víkingi.

„Við töpuðum fyrir Víkingi Ólafsvík fyrir verslunarmannahelgi og Reyni strax eftir verslunarmannahelgi, það var einhver verslunarmannahelgarþynnka í okkur þar. Hausinn á okkur var kominn á eitthvað annað flug. Við misstum Úlf [Ágúst Björnsson] út um þetta leyti, vorum að detta í einhver leikbönn og þetta riðlaðist aðeins hjá okkur. Svo náðum við að bregðast við því eftir því sem leið á mótið og ná aftur vopnum okkar.“

Einn af hápunktum knattspyrnusumarsins á Suðurnesjum var klárlega viðureign Keflavíkur og Njarðvíkur í átta liða úrslitum Mjólkurbikars karla þar sem Njarðvíkingar báru sigurorð af nágrönnum sínum 4:1. Hér fagnar Magnús öðru tveggja marka sinna í leiknum.


Vill meiri tíma með gríslingunum

Magnús og Tanja Tómasdóttir, kona hans, eiga saman þrjú börn; Dag Fannar (sjö ára), Lenu Björk (þriggja ára) og Matthías Kára (eins og hálfs), og Magnús segist vilja geta varið meiri tíma með fjölskyldunni á sumrin en samhliða fótboltanum og með fimm manna fjölskyldu lauk Magnús viðskiptafræði á síðasta ári, hann er sem stendur að bæta við sig löggildingu sem fasteignasali.

Þannið að planið hjá þér er að verja meiri tíma með fjölskyldunni

„Ég er nú ekki búinn að taka neina ákvörðun. Planið er að klára síðasta leikinn, sem er á móti ÍR á laugardaginn, klára hann almennilega og síðan er lokahófið. Svo fer maður að hugsa sinn gang inn í október og tekur stöðuna þá.

Það spilar auðvitað inn í að vera að klára löggildinguna. Það er lýjandi til lengdar að vera í námi, eiga fjölskyldu og að mæta á æfingar – þetta var ekkert eðlilegt eins og það var á síðasta ári. Svo koma próf í ofanálag, þetta var vel strembið en maður meltir þetta í haust.

Svo er hitt að golfið bíður manns eftir fótboltann en ég var alltaf í golfi þegar ég var yngri, var með eitthvað um tíu í forgjöf þegar ég hætti og var sumarstarfsmaður á golfvellinum í Leiru. Mig langar að fara að gefa mér meiri tíma fyrir það í framtíðinni,“ segir Magnús Þórir að lokum.

Vill verja meiri tíma með fjölskyldunni.