Íþróttir

Færeyingurinn farinn frá Keflavík
Patrik Johannesen að skora gegn FH.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 23. nóvember 2022 kl. 09:28

Færeyingurinn farinn frá Keflavík

Nú er orðið ljóst að Færeyingurinn Patrik Johannesen er á förum frá Keflavík fyrir metfé á innlendum knattspyrnumarkaði. Johannesen kom til Keflavíkur fyrir yfirstaðið tímabil og var markakóngur liðsins en hann skoraði tólf mörk í Bestu deild karla og eitt í bikarkeppni KSÍ.

Patrik gengur til liðs við Íslandsmeistara Breiðabliks en heldur er Keflavíkurhópurinn tekinn að þynnast þykir mörgum og verður vart við ólgu meðal stuðningsmanna á spjallborði knattspyrnudeildarinnar þar sem margir lýsa yfir áhyggjum fyrir komandi tímabil.

Patrik Johannesen var kynntur sem nýr leikmaður Breiðabliks í morgun. Mynd af Facebook-síðu knattspyrnudeildar Breiðabliks

Markvörðurinn Sindri Kristinn Ólafsson er einn þeirra sem er farinn en Sindri gekk til liðs við FH í síðustu viku, þá er bakvörðurinn Rúnar Þór Sigurgeirsson búinn að semja við Östers IF sem leikur í sænsku Superettan, eða næstefstu deild Svíþjóðar. Áður var framherjinn Adam Árni Róbertsson búinn að söðla um og ganga til liðs við Þrótt í Vogum. Það verður einnig að teljast ólíklegt að Adam Ægir Pálsson komi til með að leika með Keflavík á næsta tímabili en hann kom á láni frá Víkingi Reykjavík. Adam Ægir var stoðsendingakóngur Bestu deildar karla í sumar og skoraði sjö mörk að auki í deildinni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Rúnar Þór og Sindri Kristinn með A-landsliði Íslands í Suður-Kóreu fyrr í mánuðinum.

Fleiri póstar í Bestudeildarliði Keflavíkur eru sagðir liggja undir feldi og íhuga sín framtíðaráform, menn eins og Joey Gibbs, Dani Hatakka og fleiri.

Góðu fréttirnar verða að teljast þær að Spánverjinn Ígnacio Heras Anglada, eða Nacho Heras, verður áfram í herbúðum liðsins en hann var valinn besti leikmaður meistaraflokks karla á síðasta tímabili.

Nacho Heras, sem var valinn besti leikmaður meistaraflokks karla, verður áfram í herbúðum Keflavíkur. Hér fagnar hann marki sínu gegn Fram.

Stefán Jón Friðriksson, fyrirliði Keflvíkinga, í úrslitaleik bikarkeppni 2. flokks gegn Val en Valur hafði betur eftir framlengingu og vítakeppni.

Margir spennandi leikmenn, sem eru ýmist í eða að ganga upp úr 2. flokki karla, munu líklega fá tækifæri til að sanna sig fyrir Sigurði Ragnari Eyjólfssyni, þjálfara Keflvíkinga, áður en nýtt tímabil hefst. Má þar nefna markvörðinn Ásgeir Orra Magnússon, Guðjón Stefánsson, sem var valinn besti leikmaður 2. flokks, Oliver Einarsson, efnilegasta leikmann flokksins, og Stefán Jón Friðriksson, fyrirliða 2. flokks karla. Allt eru þetta mjög efnilegir leikmenn en þeir eiga eftir að þurfa að þroskast hratt til að vera klárir fyrir keppni á efsta stigi knattspyrnunnar hérlendis.

Of lítið lagt til íþróttamála

Í viðtali við Víkurfréttir fyrir skemmstu [Víkurfréttir, 41. tbl., 43. árg.] segir Sigurður Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, að knattspyrna á Íslandi sé á mörkum þess að vera fjárhagslega rekstrarhæf.

„Hún er rekstrarhæf með framlagi frá sveitarfélagi, fyrirtækjum og einstaklingum. Það þarf meira til en einungis vinnuframlag sjálfboðaliða,“ sagði hann og kallaði eftir auknu framlagi frá Reykjanesbæ og fyrirtækjum sveitarfélagsins. „... þá þarf bærinn að koma sterkari inn til að styðja við íþróttastarf með einhverjum hætti. Það má samt ekki eingöngu setja þetta á bæinn. Fyrirtækin í bænum, velunnararnir. Þessir aðilar eiga að sjá hag sinn í því að hér sé betra samfélag og ættu þess vegna að gera það sama og við erum að fara fram á við bæinn. Þeir sem hafa mesta hagsmuni af því að hér sé gott samfélag eiga að standa með okkur í þessum málum.“