Blik í auga
Blik í auga

Íþróttir

Eistneskur landsliðsmaður til liðs við Grindavík
Fimmtudagur 6. ágúst 2020 kl. 13:55

Eistneskur landsliðsmaður til liðs við Grindavík

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur hefur samið við eistneska landsliðsmanninn Joonas Jarvelainen fyrir komandi keppnistímabil í Domino‘s-deild karla. Joonas er 202 sentimetrar á hæð sem getur leyst stöðu miðherja og sem stór framherji.

Joonas er þrítugur að aldri og á að baki nokkuð farsælan feril í heimalandi sínu en einnig leikið í Bretlandi. Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, er ánægður með að hafa gengið frá samkomulagi við Joonas:

„Hann býr yfir góðum sóknarhæfileikum og var til að mynda stigahæsti leikmaðurinn í efstu deildinni í Eistlandi á síðustu leiktíð. Hann hefur einmitt spilað lungað úr sínum ferli í Eistlandi en spilaði einnig tvö tímabil í Bretlandi með ágætum árangri. Hópurinn er að verða nokkuð þéttur og hlökkum til að sjá hann á parketinu sem fyrst,“ segir Daníel Guðni.

Joonas Jarvelainen lék með Tal Tech í eistnesku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og var með 18,35 stig að meðaltali í leik.