Danielle Rodriguez nýr meðlimur ljónahjarðarinnar í Njarðvík
Það er skammt stórra högga á milli hjá kvennaliði Njarðvíkur en degi eftir að tilkynnt var um að einn erlendu leikmanna liðsins, Emilie Hesseldal, myndi leika fyrir Grindavík á næsta tímabili, var tilkynnt rétt í þessu að fyrrum leikmaður Grindavíkur, Danielle Rodriguez, muni leika með Njarðvík á næsta tímabili.
Danielle sem lék tvö tímabil með Grindavík áður en hún hélt í atvinnumennsku í Sviss á yfirstandandi tímabili, fékk íslenskan ríkisborgararétt eftir áramót í fyrra og telur því ekki til erlendra leikmanna hjá Njarðvík.
Fyrir nokkrum dögum var tilkynnt um tveggja ára samning hinnar bandarísku Brittany Dinkins en hún var einn besti leikmaðurinn í Bónusdeild kvenna á síðasta tímabili. Í leiðinni gerðu Krista Gló Magnúsdóttir og Eygló Kristín Óskarsdóttir, einnig tveggja ára samning við grænu ljónynjurnar.
„Við erum vissulega að gera taktíska breytingu á meistaraflokki kvenna með þessari ráðningu. Dani er þekkt stærð í íslenska boltanum og við í Njarðvík stefnum áfram á framfarir og baráttu meðal þeirra bestu,“ sagði Einar Jónsson formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur.
Njarðvík varð bikarmeistari á síðasta tímabili og fór alla leið í oddaleik á móti Haukum eftir að hafa lent 0-2 undir í lokaúrslitunum. Greinilega á að byggja á þessum góða árangri og er Einari Árni Jóhannsson, þjálfari liðsins, spenntur fyrir komandi tímabili.
„Það er mikill fengur í Dani sem er fjölhæfur bakvörður og mikill leiðtogi. Hún eflir bæði okkar lið og kemur sömuleiðis sterk inn í uppbyggingu framtíðarleikmanna félagsins í yngri flokkunum. Við teljum feykisterkt að festa hana næstu tvö árin eins og meginþorra okkar hóps. Það er tilhlökkun fyrir næsta vetri þar sem við ætlum að byggja ofan á vinnu síðasta vetrar,“ sagði Einar Árni.