Bygg
Bygg

Íþróttir

Daníel Guðni tekur við karlaliði Keflavíkur og Hörður Axel verður með kvennaliðið
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 27. maí 2025 kl. 14:48

Daníel Guðni tekur við karlaliði Keflavíkur og Hörður Axel verður með kvennaliðið

Njarðvíkingurinn Daníel Guðni Guðmundsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Keflavíkur og gildir samningurinn til tveggja ára. Í gær var tilkynnt að Hörður Axel Vilhjálmsson verði næsti þjálfari kvennaliðs Keflavíkur.

Þjálfararnir taka báðir við af Sigurði Ingmundarsyni sem hljóp í skarðið fyrir bæði lið Keflvíkinga um mitt síðasta tímabil.

Daníel hefur áður þjálfað karlalið Njarðvíkur og Grindavíkur en meistaraflokksþjálfaraferillinn hófst með kvennalið Grindavíkur.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Daníel Guðni Guðmundsson skrifaði í dag undir samning við Keflavík og verður því með karlalið Keflavíkur næstu tvö árin. Daníel hefur verið viðloðandi þjálfun í meira en 20 ár þó ungur sé hann að árum og hefur víðtæka reynslu sem mun nýtast vel í starfi hér í Keflavík. Vinna er í fullum gangi í leikmannamálum og ekki hægt að útiloka að einhverjar fréttir berist í þeim málum innan skamms. Danni er fullur eftirvæntingar að koma aftur inn í íslenska körfuboltann og telur að Keflavík sé fullfært um að keppa meðal efstu liða á komandi tímabili,“ segir á Facebook síður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.

„Í Keflavík er gerð krafa um að vera á meðal þeirra bestu og ég kem inn í þetta starf vitandi það. Það er mikil tilhlökkun að byrja strax að móta liðið. Meðal forráðamanna liðsins er klárlega metnaður að ná betri árangri en í ár og þangað er stefnan tekin,” sagði Daníel Guðni

Hörð Axel þarf vart að kynna fyrir stuðningsmönnum Keflavíkur en hann lék með karlaliði Keflavíkur áður en hann færði sig til Álftaness fyrir tveimur árum. Hann lagði skóna svo á hilluna eftir nýafstaðið tímabil. Þá var Hörður einnig aðalþjálfari kvennaliðs Keflavíkur tímabilið 2022-23 en þá fór liðið alla leið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn, þar sem liðið laut í lægra haldi gegn Val eftir að hafa unnið deildarmeistaratitilinn í deildarkeppninni.

„Í gær skrifaði Hörður Axel undir tveggja ára samning sem þjálfari kvennaliðsins. Hörð þarf vart að kynna fyrir keflvískum stuðningsmönnum en hann lék lengi vel með okkar liði ásamt því að þjálfa kvennaliðið og því má segja að Hörður sé kominn heim. Fyrir stuttu lék hann sinn síðasta leik sem leikmaður en hann tilkynnti opinberlega eftir að Álftanes féll úr leik eftir æsispennandi einvígi gegn Tindastól að hafi leikið sinn síðasta leik. Það verður því frábært að fá hann inn í þjálfarateymið okkar. Framundan eru spennandi tímar og Hörður er kominn á fullt í það að undirbúa komandi vetur. Við bjóðum hann innilega velkominn aftur til okkar og hlökkum til að vinna með honum á ný. Stefnan er að sjálfsögðu tekin á toppinn,“ segir á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.