Íþróttir

Birna leiddi Keflvíkinga til sigurs í Hafnarfirði
Úr leik Keflavíkur og Hauka fyrr á tímabilinu. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 15. febrúar 2024 kl. 10:00

Birna leiddi Keflvíkinga til sigurs í Hafnarfirði

Topplið Keflavíkur hafði betur gegn Haukum í hnífjafnri rimmu liðanna í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í gær. Leikurinn var jafn og spennandi fram á lokamínútur en Keflvíkingar reyndust sterkari á lokasprettinum og lönduðu enn einum sigrinum í deildinni.

Haukar - Keflavík 72:76

Leikur Keflavíkur og Hauka var hnífjafn framan af en Haukakonum tókst að breyta stöðunni úr 31:31 í 41:33 undir lok fyrri hálfleiks og fóru því með átta stiga forskot inn í hálfleikinn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Keflvíkingar hófu þriðja leikhluta af krafti og sóttu hart að forystu heimaliðsins og náðu muninum niður í eitt stig (44:43). Þegar þriðji leikhluta lauk var staðan aftur orðin jöfn, 54:54.

Í fjórða leikhluta höfðu heimakonur framan af eins til tveggja stiga forskot en það snerist við um miðbik leikhlutans og Keflavík tók forystuna. Haukar komust einu sinni yfir (72:70) en Keflavík kláraði leikinn með því að skora sex síðustu stigin.

Birna Valgerður Benónýsdóttir var stigahæst með tuttugu stig, þá var Daniela Wallen með fimmtán stig, Elisa Pinzan tólf og Anna Ingunn Svansdóttir með ellefu. Telma Ágústsdóttir var með sjö stig, Anna Lára Vignisdóttir og Emelía Ósk Gunnarsdóttir með fjögur stig hvor og Sara Rún Hinriksdóttir með þrjú.