Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ætlar að verða lögga eins og pabbi
Anna Lára gaf ekkert eftir í sínum fyrsta A-landsleik. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 15. nóvember 2024 kl. 06:49

Ætlar að verða lögga eins og pabbi

– segir körfuknattleikskonan Anna Lára Vignisdóttir sem lék sinn fyrsta A-landsleik á dögunum

Íslenska kvennalandsliðið lék tvo leiki í undankeppni Evrópumótsins í körfuknattleik í landsleikjaglugganum nú nýverið, í Ólafssal þann fyrri á fimmtudag gegn Slóvakíu og seinni leikurinn var gegn Rúmeníu á sunnudag. Ísland vann rúmenska liðið 77:73 en tapaði fyrri leiknum með átta stigum (70:78) eftir hörkubaráttu. Körfuknattleiks-konan Anna Lára Vignisdóttir úr Keflavík steig stórt skref á sínum ferli þegar hún lék sinn fyrsta A-landsleik en Benedikt Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands, tefldi Önnu fram í rúmar sjö mínútur gegn Slóvakíu og stóð hún sig vel í þessari frumraun sinni. Auk Önnu Láru voru þrír félagar hennar úr Keflavíkurliðinu valdar í landsliðið, þær Thelma Dís Ágústsdóttir og systurnar Anna Ingunn og Agnes María Svansdætur. Víkurfréttir slógu á þráðinn til Önnu Láru og heyrðu í henni hljóðið eftir fyrsta landsleikinn.

Hefur spilað með öllum yngri landsliðunum

Hvernig var að spila fyrsta A-landsleikinn?

„Það var æðislegt, geggjað að fá þetta tækifæri. Ég spilaði með öllum yngri landsliðunum og það er frábært að vera núna búin að spila með A-landsliðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Maður fær svo mikið út úr því að spila gegn alls konar erlendum liðum. Það er svo mikil reynsla sem maður nær að safna á mótum eins NM og EM og það gerir mann að betri leikmanni.“

Og þú fékkst að spreyta þig gegn Slóvakíu.

„Já, ég átti alls ekki von á því að fá svona mikinn spilatíma. Þetta voru held ég einhverjar sex mínútur,“ segir Anna Lára, augljóslega enn í sjöunda himni, en hún fékk að spila í heilar sjö mínútur og nítján sekúndum betur en það.

„Verst að hafa ekki klárað þetta með sigri en mér fannst við standa okkur vel.“

Anna Lára sýndi flotta takta í leiknum gegn Slóvakíu.

Anna Lára hefur fest sig í sessi með meistaraflokki Keflavíkur, er einn af lykilleikmönnum liðsins og fengið töluverðan spilatíma á þessu tímabili – en hvernig finnst henni tímabilið fara af stað hjá Keflavík?

„Svona upp og niður. Það eru þrjár ennþá fjarverandi hjá okkur [Birna Valgerður Benónýsdóttir, Sara Rún Hinriksdóttir og Katla Rún Garðarsdóttir] og mér finnst við vera að standa okkur ágætlega þrátt fyrir það.“

Hefði líka verið gaman að velja fótboltann

Anna Lára segist hafa verið um sex ára þegar hún byrjaði í fótbolta og körfubolta. Þegar hún var komin í fimmta, sjötta bekk var eiginlega ekki hægt að vera í báðum greinum og hún valdi körfuboltann.

Þú sérð væntanlega ekki eftir því núna.

„Ég veit það ekki,“ svarar hún ósannfærandi. „Nei, ég sé ekki eftir því en það hefði örugglega líka verið gaman að vera áfram í fótbolta.

En hvað gerir Anna Lára þegar hún er ekki í körfubolta? Áttu einhver áhugamál?

„Mér finnst voðalega gaman að fara í ræktina, svo bara að verja tíma með vinum mínum og fjölskyldu.“

Löngu búin að velja sér starfsvettvang

Anna Lára lauk stúdentsprófi frá FS í fyrra en hún er fyrir löngu búin að velja sér starfsvettvang á sviði löggæslu og er núna í námi í lögreglufræði.

Snemma beygist krókurinn. Anna Lára var ekki há í loftinu þegar hún ákvað að hún ætlaði að verða lögga þegar hún yrði stór. Á myndinni vinstra megin er hún með löggunum í fjölskyldunni og Guðrúnu Elísabetu, litlu systur, sem er efnileg körfuboltastelpa. Til hægri með mömmu sinni.

„Já, ég ætla að verða lögga. Pabbi og konan hans eru bæði í löggunni og ég hef ætlað að verða lögga frá því að ég var lítil stelpa.

Ég held að þetta sé starf sem á vel við mig, örugglega oft mjög erfitt en það sem heillar mig er fjölbreytnin. Það eru engir tveir dagar eins hefur maður heyrt.“

Hvað er lögreglufræðin langt nám?

„Það er tveggja ára nám við Háskólann á Akureyri og svo eru teknar lotur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, ég er einmitt í einni slíkri núna – og vonandi fæ ég vinnu við þetta í sumar, ég ætla alla vega að sækja um,“ sagði þessi verðandi lögreglukona að lokum.

Keflvíkingarnir Agnes María, Anna Ingunn, Thelma Dís og Anna Lára eftir landsleikinn gegn Slóvakíu.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á landsleik Íslands og Slóvakíu í Ólafssal og tók meðfylgjandi myndir sem má sjá í myndasafni hér að neðan.

Ísland - Slóvakía (70:78) | Undankeppni EM kvenna 7. nóvember 2024