Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Aerial tryggði Keflavík öll stigin
Aerial Chavarin skoraði sigurmark Keflvíkinga í kvöld. Hér sækir hún að marki Tindastóls í fyrri viðureign liðanna sem Keflavík vann einnig 1:0. Myndir úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 30. ágúst 2021 kl. 21:14

Aerial tryggði Keflavík öll stigin

Keflvíkingar tóku stórt skref í áttina að því að tryggja sér áframhaldandi sæti í deild þeirra bestu þegar Keflavík lék sigraði Tindastól, botnlið Pepsi Max-deildar kvenna, á útivelli í kvöld.

Eins og við var að búast varð úr hörkuleikur enda bæði liðin að berjast við falldrauginn, Keflavík var fyrir leikinn í áttunda sæti með þrettán stig en Tindastóll í því neðsta með ellefu.

Heimaliðið fékk fyrsta færið á upphafsmínútunum en Tiffany Sornpao varði vel þrumuskot frá framherja Tindastóls.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Keflvíkingar fengu hornspyrnu skömmu síðar og upp úr henni hrökk boltinn til Aerial Chavarin sem negldi boltanum í markið og nánast reif netmöskvana (9'). Keflavík komið yfir 0:1.

Stólarnir voru meira með boltann án þess þó að skapa sér nein almennileg færi, þær fengu þó dauðafæri eftir að aukaspyrna þeirra fór í þverslána og fyrir fætur leikmanns Tindastóls sem skaut fram hjá markinu.

Skömmu síðar fékk Keflavík aukaspyrnu og sendu boltann inn í teiginn hjá Stólunum, þaðan barst boltinn til Kristrúnar Ýr Holm sem setti hann í netið eftir samstuð við markvörð Tindastóls. Kristrún var hins vegar dæmd rangstæð og staðan hélst því óbreytt í hálfleik.

Fyrirliðinn Natasha Anasi fékk að líta gula spjaldið í byrjun síðari hálfleiks.

Snemma í seinni hálfleik skoruðu Keflvíkingar annað mark sem var dæmt af þeim og allt á suðupunkti. Keflavík hafði þó undirtökin í leiknum en eftir því sem leið á síðari hálfleik vann Tindastóll sig meira inn í hann og settu svolitla pressu á gestina.

Skömmu fyrir leikslok voru Stólarnir hársbreidd frá því að skora jöfnunarmark en skotið hafnaði í þverslánni og Keflvíkingar sluppu með skrekkinn. Mínútu síðar var Kristrún Ýr nálægt því að gera endanlega út um leikinn með góðu skoti úr vítateig en markvörður Tindastóls varði vel.

Kristrún Ýr var tvívegis nærri því að skora í kvöld, í fyrra skiptið var mark tekið af henni vegna rangstöðu og í það seinna varði markvörður Stólanna vel. Hér skorar Kristrún sigurmarkið í viðureign Keflavíkur og Tindastóls fyrr í sumar.

Keflavík hafði sigur að lokum og með honum færast þær fjær fallsvæðinu því á sama tíma gerðu Fylkir og Þróttur jafntefli. Það þýðir að Fylkir situr áfram í fallsæti með þrettán stig en Keflavík er með þremur stigum meira, komið með sextán stig, þegar tvær umferðir eru eftir og Keflavík hefur talsvert betra markahlutfall en Fylkir.