Íþróttir

„Meiri ákafi! Meiri orka!“
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 26. mars 2021 kl. 07:40

„Meiri ákafi! Meiri orka!“

Maciej Baginski segir leið Njarðvíkinga aðeins vera upp á við eftir lengstu taphrinu félagsins í úrvalsdeild

Hvorki hefur gengið né rekið að undanförnu hjá Njarðvík í Domino’s-deild karla í körfubolta. Njarðvíkingar eru að ganga í gegnum lengstu taphrinu félagsins frá upphafi úrvalsdeildarinnar, sex tapleikir í röð, og voru teknir í bakaríið af nágrönnum sínum í Keflavík um síðustu helgi. Leikurinn endaði 89:57 eða 32 stiga tap sem er stærsta tap Njarðvíkur gegn Keflavík á útivelli. Njarðvík hefur tapað ellefu leikjum og aðeins unnið fimm eftir fjórtán umferðir. Eitthvað virðist tapið hafa ýtt við Njarðvíkingum sem sýndu mikil batamerki strax í næsta leik þegar þeir mættu. Njarðvíkingar voru sterkari aðilinn framan af en þeir gáfu eftir í fjórða leikhluta, lokatölur 78:80 fyrir Val. Miklu munaði um fjarveru reynsluboltans og fyrirliðans Loga Gunnarssonar auk þess að Maciej Baginski, sem var með ellefu stig og þrjú fráköst í fyrri hálfleik, lenti í villuvandræðum og lék ekki meginhluta þess seinni. Við ræddum við Maciej um stöðu Njarðvíkur og fleira.

„Mér líst ágætlega á framhaldið, þetta er staða sem maður hefur aldrei verið í áður og við þurfum bara að sigrast á henni. Leiðin liggur upp því við getum ekki farið lengra niður, ekki spilalega séð,“ segir ­Maciej aðspurður um hvernig honum lítist á stöðuna.

– Þetta virtist nú vera á réttri leið í leiknum gegn Val.

„Klárlega, manni leið mun betur í þessum leik en leikjunum á undan. Það var meira sjálfstraust í liðinu, meiri ákafi og meiri orka. Það skiptir máli.“

– Logi lék ekki með og þú ferð út af í þriðja leikhluta, það munar um minna.

„Já, sérstaklega þá reynsluna hans Loga í svona jöfnum leik og hann hefði náttúrlega hjálpað okkur mjög mikið. Svo fæ ég tvær frekar aumar villur í þriðja leikhluta og er tekinn út af fram í miðjan fjórða leikhluta næstum því. Það var mjög svekkjandi.“

– Þið ætlið náttúrlega að gefa í og færa ykkur upp töfluna, er það ekki?

„Já, við ætlum að bæta það sem við gerðum í síðasta leik – bæta við þessum fimm mínútum sem vantaði upp á, ná loksins góðum fjörutíu mínútna leik. Mér fannst við ná svona 35 mínútum gegn Val.“

– Svona heilt yfir, er liðið ekki nokkuð heilt?

„Það eru náttúrlega allir eitthvað hnjaskaðir á tímabili eins og þessu, ég er t.d. ekki 100% og aðrir eru það ekki heldur. Það er engin afsökun, það eru flest lið í þessari stöðu og við ætlum ekki að nota það sem afsökun heldur bara bæta okkur.“

– Það er mikið álag á leikmenn núna.

„Já, það er ekki eitthvað sem við höfum þekkt hérna á Íslandi. Ekki svona mikið.“

Stoltir foreldrar heilsa litlu stúlkunni sinni.

Ljósið í tilverunni

Lífið snýst ekki eingöngu um körfubolta hjá Maciej. Hann og unnusta hans, Kolbrún Gunnarsdóttir, urðu foreldrar í fyrsta sinn janúar svo það er mikið umstang á heimilinu. Þar að auki er Maciej í meistaranámi í fjármálum sem hann vonast til að klára á árinu svo hann ætti ekki að deyja úr aðgerðarleysi á næstunni.

„Það er í nógu að snúast. Ég er í meistaranámi í fjármálum í Háskólanum í Reykjavík, svo er ég með eina tveggja mánaða heima og það er í nógu að snúast í kringum hana. Það er nóg að gera en flestallt skemmtilegt, svo mér líður bara ágætlega. Þetta er fyrsta barn og hún er bara eins og ljós – maður er bara þakklátur fyrir það,“ segir Maciej Baginski sem lítur björtum augum til framtíðarinnar.