Max Norhern Light
Max Norhern Light

Íþróttir

„Erfitt að vera manni færri í sjötíu mínútur“
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 27. júní 2020 kl. 09:37

„Erfitt að vera manni færri í sjötíu mínútur“

– sagði Ray Anthony Jónsson eftir naumt tap gegn Hömrunum fyrir norðan

Grindavíkurstúlkur hafa farið frekar illa af stað í sumar, fyrst voru þær slegnar út úr bikarnum og svo töpuðu þær um síðustu helgi fyrir Hömrunum á Akureyri. Það ber hæst vægast sagt undarlegur dómur þegar markaskorara Grindvíkinga, Birgitta Hallgrímsdóttir, var vikið af velli með beint rautt spjald (hægt er að sjá myndband og umfjöllun um atvikið umdeilda á Fótbolti.net). Ray Anthony Jónsson, þjálfari Grindvíkinga, ræddi við fréttamann Víkurfrétta eftir umræddan leik. Grindavíkurstúlkur eiga heimaleik í dag klukkan 14:00 gegn sameinuðu liði Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis í 2. deild kvenna í knattspyrnu.

Þetta gekk og gekk ekki hjá okkur. Við stóðum okkur ágætlega en þegar Birgitta var rekin af velli varð þetta erfiðara. Ég sá þetta ekki nógu vel en er búinn að skoða upptökur og mér finnst þetta vera rangur dómur, ekki gult spjald hvað þá rautt.

– Væntanlega verið erfitt einni færri?

Já, það var erfitt að vera manni færri í sjötíu mínútur en stelpurnar voru duglegar, héldu boltanum vel og sköpuðu sér færi. Í raun áttum við að vinna leikinn finnst mér, við áttum skot í slá og niður sem er spurning hvort hafi verið inni.

– Þið takið á móti sameinuðu liði Fjarðarb./Hattar/Leiknis næst, hvert er uppleggið fyrir þann leik?

Við erum með gott lið og ætlum að vinna alla leiki. Við ætlum okkur beint upp aftur. Ég geri mér grein fyrir að maður vinnur kannski ekki alla leiki en við eigum að vinna þá langflesta.