Vandi vegna 20% íbúafjölgunar í Vogum
Eðlilegt að fólki flytji lögheimili sitt þangað sem það býr
„Ég greindi ríkisstjórninni frá 20% íbúafjölgun á einu ári hjá okkur þegar Grindvíkingar fluttu í Voga. Það er brýnasta verkefni okkar að fá lausn í húsnæðismálum og við höfum leitað ásjár ríkisstjórnarinnar vegna þeirra mála. Það hafði töluverð áhrif hve margir Grindvíkingar fluttu til okkar og það hefur reynt mikið á í okkar innviðum. Við þurfum að koma upp færanlegum einingum fyrir haustið og fjárhagurinn er þröngur, við bjuggumst ekki við þessari fjölgun á sl. ári. Þetta brennur mjög á okkur,“ sagði Guðrún Ólafsdóttir, bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Vogum, eftir fund með ríkisstjórninni í Keflavík sl. föstudag.
Guðrún segist hafa fengið jákvæð viðbrögð og það hafi verið gott að fá tækifæri til að fara yfir málin með ríkisstjórninni varðandi þessa 20% fjölgun á einu ári sem er umtalsverð og um tíma hafi 13% íbúa verið aðsetursskráðir og þar af leiðandi ekki að greiða útsvar til sveitarfélagsins. „Þetta kemur verulega við okkur. Við höfum tekið vel á móti Grindvíkingum og haldið vel utan um börnin í skólunum og ætlum áfram að gera okkar besta. Það sem gerðist er að fjölskyldufólkið flutti lögheimilið í haust og eru orðnir íbúar Voga en svo eru 3% af íbúum Voga sem eru aðsetursskráðir og eru þá væntanlega aðilar sem ekki þurfa að nýta sér þjónustu eins og t.d. skóla eða aðra þjónustu sveitarfélagsins. En auðvitað eru allir íbúar að nýta einhverja þjónustu í sveitarfélaginu. 3% af heildaríbúafjölda er töluverður fjöldi fyrir okkur í svona litlu sveitarfélagi,“ sagði Guðrún.
Aukningin með Grindvíkingunum inn í skólana nemur 27%. Bæjarstjórinn segir að málið hafi verið leyst með samvinnu kennara og fleiri, hliðrað til og farið í aðgerðir til að taka vel á móti nýjum nemendum en myndað var teymi vegna málsins. M.a. þurfti að fjölga starfsfólki.
„Lendingin hlýtur að vera sú að íbúar flytji lögheimili sitt í það sveitarfélag þar sem það býr. Það er verið að nýta hvern fermetra í þessum byggingum. Nú er það sprungið en það var líka einungis hugsað sem tímabundin eða bráðabirgða lausn. Það er vilji fyrir því að fara í hönnun viðbyggingar og við gerðum ráð fyrir því í okkar plönum en þessi mikla fólksfjölgun setti þau plön úr skorðum. Það var kominn tími á innviðauppbyggingu, það fer líka að koma þörf í leikskóla og víðar, t.d. í stjórnsýslunni hjá okkur sem erum í þjónustu í sveitarfélaginu. Við erum hlaupandi á öllum vígstöðvum og gerum okkar besta.“