Um 14 milljón rúmmetrar af kviku hafa safnast undir Svartsengi frá síðasta eldgosi
Um 14 milljónir rúmmetrar af kviku hafa safnast undir Svartsengi frá síðasta eldgosi. Út frá fyrri atburðum á Sundhnúksgígaröðinni aukast líkurnar á nýju kvikuhlaupi og eldgosi þegar jafn mikið af kviku hefur safnast fyrir undir Svartsengi og hljóp út í síðasta atburði. Ef horft er til eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni frá því í mars 2024 má sjá að það magn kviku sem hlaupið hefur úr Svartsengi í hvert skipti er nokkuð breytilegt eða frá 12 milljónum upp í 31 milljón rúmmetra. Því er óvissan um nákvæma tímasetningu á næsta atburði enn þó nokkur, segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Jarðskjálftavirkni
Áfram er frekar lítil jarðskjálftavirkni við Grindavík og Sundhnúksgígaröðina og mælast þar stöku smáskjálftar um eða rétt yfir M1.0 að stærð. Flestir þeirra eru staðsettir milli Hagafells og Grindavíkur.
Skammvinn smáskjálftahrina varð á Sundhnúksgígaröðinni þann 11. október þegar rúmlega 20 jarðskjálftar mældust, en síðan þá hafa mest mælst fimm skjálftar á dag.
Virkni nærri Krýsuvík
Skjálftavirkni nærri Krýsuvík heldur áfram og mælist þar fjöldi smáskjálfta á hverjum degi. Þann 22. október urðu tveir skjálftar yfir M3 að stærð vestur af Kleifarvatni en þeir voru M3,1 og M3,6 að stærð. Þann dag mældust yfir 120 jarðskjálftar á svæðinu. Landsig heldur einnig áfram á svæðinu sem mælst hefur frá því í sumar og nemur nú um 55 mm á GPS stöðinni í Móhálsadal, vestan Kleifarvatns, síðan í byrjun júní. Þó hefur dregið úr hraða landsigsins síðustu vikur.
Hættumat
Hættumat Veðurstofunnar hefur verið uppfært og verður óbreytt til 11. nóvember nema ef virkni breytist.









