Fréttir

Val á framboðslista Sjálfstæðisflokksins
Föstudagur 14. janúar 2022 kl. 11:51

Val á framboðslista Sjálfstæðisflokksins

Þann 20. janúar mun fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ koma saman til að taka ákvörðun um hvaða leið verður viðhöfð við val á framboðslista flokksins til sveitastjórnarkosninga í vor. Stjórn fulltrúaráðsins mun leggja til að efnt verði til prófkjörs enda rík hefð fyrir því innan Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn er breiðfylking fólks með fjölbreytta hæfni og reynslu og það er mikilvægt að það fái tækifæri til að gefa kost á sér; alveg eins og það er mikilvægt fyrir sjálfstæðismenn að fá tækifæri til að velja frambjóðendur flokksins með beinum hætti.

Það liggur fyrir að það verði umtalsverðar breytingar á bæjarstjórn Reykjanesbæjar í vor. Oddvitar tveggja framboða eru komnir á þing og dæmi er um að framboðslistar sem buðu fram síðast munu hverfa af sviðinu. Það eru því mikil tækifæri fyrir öfluga einstaklinga með hugsjónir til að taka þátt í að móta samfélagið sitt með því að taka þátt í sveitarstjórnarmálum og þá sérstaklega í gegnum starf Sjálfstæðisflokksins. Því hvet ég allt sjálfstæðisfólk til að taka þátt í kraftmiklu starfi flokksins og alveg sérstaklega ef efnt verður til prófkjörs. Þá er mikilvægt að sem flestir taki þátt í slíkri lýðræðisveislu til að ná fram besta mögulega framboðslista.

 Í prófkjöri yrði kosið að minnsta kosti um jafn mörg sæti og flokkurinn á fulltrúa í bæjarstjórn og í mesta lagi tvöfalt fleiri. Það er að segja, að minnsta kosti þrjú og mest sex efstu sætin. Það mun kjörnefnd ákveða ákveða ásamt nánari útfærslu og auglýsa eftir framboðum. Almennar upplýsingar um þessi mál og skipulagsreglur flokksins er hægt að nálgast inn á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins, xd.is.

Andri Örn Víðisson

Formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ