Stuðlaberg Pósthússtræti

Fréttir

Troðfullar 64 síður af úrvals lesefni frá Víkurfréttum
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
miðvikudaginn 20. maí 2020 kl. 20:43

Troðfullar 64 síður af úrvals lesefni frá Víkurfréttum

Víkurfréttir eru komnar út í níunda sinn sem rafrænt blað. Að þessu sinni er blaðið 64 síður og eins og undanfarnar vikur eru Víkurfréttir hnausþykkar af lesefni.

Þær Krilla og Milla bjóða upp á fjölbreyttar gönguferðir um Reykjanesið og Stór-Reykjavíkursvæðið. Þær segja fallegast á Reykjanesinu og í tíu síðna umfjöllun í blaði vikunnar sjáum við glæsilega náttúru Reykjanesskagans skarta sínu fegursta í gönguferð með þeim stöllum.

Marta Eiríksdóttir er hætt í blaðamennsku og stefnir nú hópi kvenna á Garðskaga þar sem hún ætlar að bjóða gyðjum í gleði í byrjun júní. Við ræðum við Mörtu í blaðinu og einnig er hægt að horfa á viðtal við hana sem tekið var í fjörunni á Garðskaga á þriðjudagskvöldið. Í sama myndskeiði ræðum við einnig við Gísla Heiðarsson hjá hótelinu Lighthouse Inn á Garðskaga, þar sem gyðjur munu gista.

Við höldum áfram að taka netspjall við Suðurnesjafólk og í þessu blaði birtum við svör frá nokkrum sem gáfu sér tíma til að svara spurningum um allt og ekkert. „Ertu að vinna fyrir Gallup,“ spurði einn sem fékk spurningar frá blaðamanni.

Í blaðinu er rætt við Kjartan Má Kjartansson bæjarstjóra um sumarstörf í Reykjanesbæ sem laga stöðuna tímabundið. Einnig er sagt frá góðum viðbrögðum við samráðsvef Reykjanesbæjar og rætt við Jónu Hrefnu Bergsteinsdóttur um vefinn.

Sagt er frá styrk Soroptimista í Keflavík til Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum.

Guðjón Ingi Guðjónsson kynnir okkur fyrir sínum fimm uppáhaldsplötum. Með því að smella á plöturnar í blaðinu er hægt að hlusta á þær í gegnum streymisveitu.

Við segjum ykkur frá Flagghúsinu í Grindavík, sem er merkileg bygging.

Sylvía Rut Káradóttir er læknanemi við Kaupmannahafnarháskóla og hún er í viðtali við Sólborgu Guðbrandsdóttur í blaði vikunnar.

Körfuknattleiksfólk Keflavíkur grillaði fyrir fólkið í framlínunni og við vorum þar með myndavélina.

Í Garðskagaflös eru minjar um skipsströnd á tuggugustu öldinni. Okkar maður flaug með dróna að kötlunum og myndaði þá í bak og fyrir. Myndirnar eru í blaðinu.

Gullöldin í knattspyrnunni í Keflavík fær pláss í blaði vikunnar og sagt er frá því þegar ÍBK vann Íslandsmeistaratitilinn árið 1964.

Í blaðinu er dýralífinu á Suðurnesjum gerð skil. Fallegir hestar við Melaberg fá sitt pláss í blaðinu og þar má sjá lítið og sætt folald. Á golfvellinum í Leiru hefur tjaldur verpt innan um fljúgandi goldbolta. Við ræðum einig við formann GS og íþróttastjóra félagsins í myndskeiði í blaðinu.

Á baksíðunni eru svo lokaorð Margeirs Vilhjálmssonar og þar má einnig nálgast Suðurnesjamagasín Víkurfrétta í þessari viku.

Víkurfréttir eru aðgengilegar í rafrænu formi á Issuu.com og tengill er á blaðið neðst í þessari frétt. Í glugganum með blaðinu er hægt að smella á hnapp og hlaða blaðinu niður sem pdf í tölvur og snjalltæki. Við hvetjum ykkur til að prófa það, en allir tenglar á myndskeið og tónlist eru áfram virkir inni í pdf-skránni.